Litlar breytingar á samningi Færeyja og ESB

Deila:

Færeyingar hafa undirritað samning um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir við Evrópusambandið fyrir næsta ár. Samningurinn er lítið breyttur frá fyrri samningi.

Samningurinn um gagnkvæmar heimildir til makrílveiða kveður á um að hvor aðili fyrir sig megi veiða tæplega 31.000 tonn innan lögsagna hvors annars á næsta ári. Þetta samsvarar þeirri lækkun sem ákveðin hefur verið á heildarkvóta á makríl. Færeyingar halda opnum sömu möguleikum og áður innan lögsögu ESB til veiða á kolmunna, en heimildirnar lækka um 1.000 tonn. Þannig verður færeyskum skipum heimilt að veiða 31.500 tonn af kolmunna innan lögsögu ESB.

Gagnkvæmar heimildir til veiða á norsk-íslenskri síld verða lækkaðar í samræmi við lækkun heildar kvóta og koma nú 4.000 tonn í hlut hvors aðila fyrir sig.

Hvað varðar aðrar tegundir lækkar spærlingskvóti Færeyinga um 3.300 tonn og verður 6.000 tonn á næsta ári. Síldarkvóti í Skagerak verður 200 tonn. Þá mega færeysk skip veiða 400 tonn á ICES svæði 4a í Norðursjó. Heildarsíldarkvótinn er þannig óbreyttur. Þá fellur niður heimild Færeyinga til veiða á 50 tonnum af karfa við Grænland.

Heimildir ESB skipa til veiða á karfa, flatfiski og öðrum fiskitegundum innan lögsögu Færeyja lækka á næsta ári, en kvótar í þorski, ýsu, ufsa og blálöngu verða óbreyttir.

 

Deila: