Hafa farið til Hirtshals í 27 ár í röð

Deila:

,,Eins og venjulega heppnaðist þessi ferð mjög vel og ég varð ekki var við annað en að þátttakendur hafi verið ánægðir með skipulagið og það sem fyrir augu og eyru bar. Það var sömuleiðis einkar ánægjulegt fyrir okkur að fá tækifæri til að hitta alla þessa menn og kynnast þeim betur.“

Þetta segir Jón Oddur Davíðsson, sölu- og markaðsstjóri veiðarfæra hjá Hampiðjunni í samtali á heimasíðu fyrirtækisins, en dagana 27. nóvember til 1. desember sl. fór hann fyrir hópi manna í hina árlegu kynningarferð Hampiðjunnar í tilraunatankinn í Norðursjávarmiðstöðinni í Hirtshals í Danmörku.

Þetta er 27. árið í röð sem slík ferð er farin á vegum Hampiðjunnar og að þessu sinni voru þátttakendur 63 talsins. Þar af voru tíu starfsmenn Hampiðjunnar og Fjarðarnets, þrír starfsmenn Thyborøn Trawldoors, þrír frá tækjaframleiðandanum Scanmar og fjórir starfsmenn Cosmos Trawl í Danmörku. Aðrir voru fulltrúar útgerðarfélaga, flestir frá Íslandi en  fimm fulltrúar voru frá rússneskum útgerðum og tveir frá Finnlandi.

Breiðvörpurnar vöktu athygli

Hampiðjan Hirtshals 1

,,Vörurnar sem við sýndum, voru líkön af flottrollum, botntrollum og toghlerum og svo sýndum við samanburðinn á venjulegum trollpokum og T90 pokanum. Að vanda buðum við svo upp á fyrirlestra og kynningu á helstu tækninýjungum. Fyrri fyrirlesturinn var fluttur af Þóri Matthíassyni framkvæmdastjóra  Scanmar á Íslandi og sá seinni af Guðmundi Gunnarssyni í Hampiðjunni sem fjallaði um T90 trollpokana og DynIce Quickline kerfið,“ segir Jón Oddur samkvæmt upplýsingum hans voru notendur botntrolla fjölmennari í ferðinni en oft áður og því var að þessu sinni meira fjallað um notkun botntrolla en flottrolla.

Hampiðjan Hirtshals 2

,,Af botntrollunum vöktu mesta athygli hinar nýju breiðvörpur, sem starfsmenn Hampiðjunnar og Fjarðarnets hafa hannað og framleitt, í góðri samvinnu við HB Granda og Samherja og skipstjórnarmenn þessara útgerðarfélaga. Annars vegar er um að ræða troll með hefðbundnu neti og hins vegar T90 eða þverneti, en þá er netinu snúið um 90° og við þá aðgerð sparast umtalsverðir fermetrar af netaefni og það er betra gegnumstreymi á toginu. Af flottrollunum vöktu breiðvörpur fyrir makríl mikla athygli og þá sérstaklega 1760 makríltrollið sem meirihluti íslenska og færeyska flotans notar við makrílveiðarnar. Einnig horfðu Rússar mikið til minni trollanna sem henta þeim betur við þær aðstæður sem þeir eiga við að etja. Rússarnir sýndu einnig mikinn áhuga á svokölluðum Wide Body trollum en þau eru mikið notuð við ufsaveiðar í Austur-Rússlandi.“

Hampiðjan Hirtshals 3

Frábær vettvangur

Jón Oddur segir að tilraunatankurinn í Hirtshals sé frábær vettvangur til að kynna nýjungar í hönnun og framleiðslu veiðarfæra.

,,Þá er þetta einnig einstakt tækifæri að hitta viðskiptavini okkar og fá að heyra þeirra álit á því sem verið er að kynna. Einnig að sjá með eigin augum hvernig veiðarfærin bregðast við ákveðnum breytingum. Þetta er ekki síður mikilvægt fyrir viðskiptavini okkar því oftar en ekki hafa menn eingöngu tilfinningu fyrir því hvað gerist þegar hlutum er breytt.

Velheppnaðri ferð lauk svo með lokakvöldi á stærsta sædýrasafni í Norður-Evrópu, Nordsøen Oceanarium, þar sem Hampiðjan, Scanmar og Thyborøn buðu þátttakendum til kvöldverðar í einstöku umhverfi. Að sögn Jóns Odds  vill Hampiðjan koma  á framfæri þakklæti til allra sem tóku þátt í þessari eftirminnilegu ferð og ekki síst til starfsmanna Hampiðjunnnar og Fjarðaneta og svo auðvitað til samstarfsaðilanna, Thyborøn Trawldoors og Scamar.

Deila: