Mun minni þorskveiði við Færeyjar

Deila:

Rétt rúmum 10.000 tonnum af fiski, öðrum en uppsjávarfiski og sjófrystum fiski úr Barentshafi, var landað í Færeyjum á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Það er samdráttur um 350 tonn, eða 3% miðað við sama tíma í fyrra. Verðmæti þessa afla var 1,9 milljarðar íslenskra króna, sem er 16% minna en í fyrra.

Botnfiskafli varð samtals 8.408 tonn sem er nánast sami afli og í fyrra. Þorskafli var 2.152 tonn, sem er rétt tæplega 1.000 tonna fall frá árinu áður, eða 32% samdráttur. Verðmæti þorskaflans var 690 milljónir króna, sem er fall um 31%. Af ýsu bárust á land 921 tonn, sem er 9% vöxtur, en verðmætið hækkaði um 19%. Ufsaaflinn var 3.965 tonn, sem er aukning um 14%, en verðmæti hans féll um 20%. Þá var landað 1.369 tonnum af öðrum botnfiski, sem er aukning um 44% og verðmætið hækkaði enn meira eða um 91%.

Flatfiskaflinn varð 480 tonn, sem er samdráttur um 31% og dróst verðmætið saman um 35%. Uppistaðan í þeim afla var grálúða, eða 289 tonn, sem þó er samdráttur um 200 tonn. 649 tonnum af skelfiski var landað umrætt tímabil, sem er fall um 151 tonn, eða 19% en verðmætið lækkaði hlutfallslega minna, eða um 13%.

Deila: