Akraborg stærst í niðursuðu lifrar í heiminum

Deila:

Niðursuðuverksmiðjan Akraborg á Akranesi er stærsti framleiðandi á niðursoðinni fisksklifur í heiminum. Með kaupum á verksmiðju í Ólafsvík verður framleiðslan í ár um 20 milljónir dósa. Hráefnis er aflað um allt land afurðirnar eru fluttar utan til Evrópu. Hjá Akraborg starfa 37 til 40 manns og vinnustaðurinn nokkuð stór miðað við Akranes.

Fyrirtækið  var stofnuð á Akranesi 1989 af tveimur  feðgunum Þorsteini Jónssyni og Jóni Þorsteinssyni. Síðan kom danska fyrirtækið Bornholms inn í starfsemina. Þeir keyptu hlut í verksmiðjunni og sömuleiðis útflutningsfélagið Triton sem er í eigu Arnar Erlendssonar og fjölskyldu hans. Fyrirtækið hefur síðan verið í eigu Bornholms og Triton „Nafnið á fyrirtækinu breyttist svo á þessum tíma og nafnið Akraborg var valið með skírskotun til staðsetningarinnar á Akranesi, en ekki voru allir hrifnir af því í upphafi. En það hefur reynst okkur vel,“ segir Einar Víglundsson verksmiðstjóri Akraborgar.

Einar Víglundsson verksmiðjustjóri Akraborgar, segir að Verkstjórasambandið og félögin innan þess hafi fylgst vel með breyttum tímum og lagað sig að aðstæðum. Hér er hann við róbótann, sem leysir af hólmi starfsfólk í pökkun.

Einar Víglundsson verksmiðjustjóri Akraborgar, segir að Verkstjórasambandið og félögin innan þess hafi fylgst vel með breyttum tímum og lagað sig að aðstæðum. Hér er hann við róbótann, sem leysir af hólmi starfsfólk í pökkun.

Framleiða 20 milljónir dósa í ár

„Hér áður var mesta framleiðslan á ári milli þrjár og fjórar milljónir dósa. 2008 byrjuðum við að gera verulegar breytingar á rekstrinum og byggja upp og endurbæta. Stærsta árið hjá okkur eftir það var 2015, en þá fórum við í 15 milljónir dósa. Nú verðum við á þessu ári eitthvað í kringum 15 milljónir dósa hér á Akranesi. Stærsta skýringin á því það er ekki meira er ákvörðun fyrrverandi utanríkisráðherra sem leiddi til stöðvunar á innflutning til Rússlands með einu pennastriki. Ekki það að við höfum verið mjög stórir inni á þeim markaði, en vorum samt að selja þangað. Bannið er að trufla alla í þessari framleiðslu, því nú þurfa þeir sem áður reiddu sig á rússneska markaðinn að leita inn á aðra markaði í Evrópu, og þá þrengir að öllum sem þar eru.

Aðrir framleiðendur eru með mjög hátt hlutfall framleiðslunnar fyrir Rússa. Það er ekki bara í niðursuðu sem innflutningsbannið í Rússlandi hefur valdið gífurlegu tjóni. Það er miklu víðar í sjávarútvegi og jafnvel landbúnaði. Sú ákvörðun að fylgja Bandaríkjunum og Evrópusambandinu í refsiaðgerðum gegn Rússum vegna Úkraínudeilunnar og kalla yfir okkur fyrir vikið viðskiptabann frá Rússum er þeim sem að því stóðu til skammar.

Á síðasta ári tókum við á móti af um 3.800 tonnum af lifur og erum í dag stærsti framleiðandi í niðursuðu á lifur í heimi. Á þessu ári jukum við umsvifin og keyptum litla verksmiðju í Ólafsvík þannig að í heildina fer fyrirtækið eitthvað um 18-20 milljónir dósa á árinu,“ segir Einar.

Aðalútflutningslönd Akraborgar eru Danmörk, Frakkland og Þýskaland,  en auk þess fara afurðirnar út um allan heim. Þetta er að langmestu leyti hrein lifrarniðursuða. Í henni er aðeins örlítið salt en önnur efni nánast engin. Hluti vörunnar eru reyktur við bruna á spónum. Varan er nánast eins hrein og hún getur orðið. Svo hefur reyndar verið að bryddað upp á smá nýjungum eins og bæta sítrónu í dósirnar og blanda saman saman lifur og hrognum í paté.

Einar segir að það sé mikill munur á því hvernig lifrin sé unnin nú en áður, eins og þegar allt var soðið í sama pottinum, fiskur, lifur og hrogn. Hann hafi látið sig hafa að borða þetta á sínum tíma með semingi. Þessi vinnsla nú sé það skemmtilegasta sem hann hafi gert. Þó hafi hann verið í sjávarútvegi alveg síðan 1978. Hann hafi tekið Fiskvinnsluskólann á árunum 1975 til 1978 og þá hafi hann verið í afleysingum á sumrin í fiskvinnslu hingað og þangað. „Þá var þessi skóli svo skemmtilegur líka að nemendur voru sendir hingað og þangað til að kynnast framleiðslu sjávarafurða; salta síld, frysta fisk og verka saltfisk. Ég er því búinn að fara í genum alla þessa flóru nema ég átti niðursuðuna eftir þegar ég kom hingað. Og hún er með því skemmtilegra sem maður hefur gert.“

Þarna er verið að sjóða niður lifur í hringlaga dósir fyrir Rússa sem búa í Þýskalandi. Þeir vilja bara hringlóttar dósir.

Þarna er verið að sjóða niður lifur í hringlaga dósir fyrir Rússa sem búa í Þýskalandi. Þeir vilja bara hringlóttar dósir.

Kunnum ekki að borða lifur

Þegar lifrin kemur í hús er  hún hreinsuð og meðhöndluð fyrir niðursuðu, sem skilar af sér afurð í dósum tilbúinni til neyslu. „Hér er maður búa til vöru sem fer bara beint út í búð. Manni finnst einmitt að við séu ekki að gera nóg að því að framleiða afurðir í neytendapakkningum í okkar sjávarútvegi. Ég segi alltaf að við Íslendingar kunnum ekki að borða þennan gæðamat sem niðursoðin lifur er. Okkur hefur einfaldlega ekki verið kennt það. Við eigum svo mikið af flottum kokkum og ég hef verið að reyna að ýta þessu að þeim, en aldrei fengið neinn  alvöru viðbrögð. Oft er verið að kynna ýmsar vörur í stórmörkuðum og gefa smakk. Maður sér aldrei lifur í slíkum kynningum. Við erum búnir að reyna að selja lifrina inn í Bónus, en það fer ansi lítið af henni. Það er bara vegna þess að fólk hann ekki að borða þetta.

Í Frakklandi nota menn lifrina eins og við notum fetaost. Lifrarbitarnir eru bara settir út á salat. Einnig er lifrin notuð mikið ofan á brauð. Við búum til paté sem er gert úr  lifrarblöndu og  hrognum með kryddblöndu. Því er bara smurt á brauð og börnum líkar þetta mjög vel ofan á ristað brauð. Þetta hlýtur að vera gott þegar ungum krökkum líkar það.“

En hvernig gengur að fá lifur til vinnslu?

„Það gengur vel. Lifrina tökum við alls staðar að, hringinn í kringum landið. Stærstu birgjarnir okkar eru Samherji, HB Grandi, Fisk Seafood. Við tökum svo lifur á Patreksfirði, á Fáskrúðsfirði og á Suðurnesjum, og Siglufriði. Við erum svo með verksmiðjuna í Ólafsvík sem tekur nánast alla lifur af Snæfellsnesinu.

Aðföngin eru þannig að flutningafyrirtækið Ragnar og Ásgeir sjá um lifrarsöfnun fyrir okkur á Snæfellsnesi. Eimskip sér um allan annan flutning í gegnum þjónustufyrirtæki, sem heitir Bratthóll, Þar er leitað að bestu verðum í flutningi og haldið utan um flutninginn á öllum leiðum. Ef við eigum von á 30 tonnum af skipi í fyrramálið, sjá þeir um að hún sé sótt og komið til okkar. Þá sér ÞÞÞ hér á Akranesi um allan flutning á dósum, sem eru að fara utan.

Það er alltaf svolítill slagur um hráefnið, en með útflutningsbanninu hjá Rússum kom afturkippur í framleiðsluna og verðið á lifrinni lækkaði. En við erum svo flinkir við það Íslendingar að ef við höldum að einhver sér að græða peninga, þá þurfa allir að prófa það sama. Svo endar það yfirleitt þannig að einhver fer á hausinn.

Tryggvi Sæberg Einarsson er einn af þeim elstu sem starfandi eru í niðursuðu á Íslandi og kann það betur til verka en flestir aðrir.

Tryggvi Sæberg Einarsson er einn af þeim elstu sem starfandi eru í niðursuðu á Íslandi og kann þar betur til verka en flestir aðrir.

Tengslin við Bornholm mikilvæg

Þetta er ekki ótakmarkaður markaður og það sem þetta fyrirtæki hefur kannski framyfir önnur eru tengslin við danska fyrirtækið Bornholm. Það framleiddi lifur til útflutnings í um hundrað ár. Síðan var komin svo mikil mengun í Eystrasaltinu að þeir máttu ekki framleiða lifur úr fiski þaðan. Þeir komu því hingað til Íslands með alla þeirra þekkingu í vinnslu og markaðsmálum, en Danir eru bestu sölumenn í veröldinni. Það er ótrúlega gaman að vinna með þeim því þeir eru alltaf með allt aðra hugsun en við Íslendingar. Bæði hvað varðar nýtni og markaðsmál. Þeirra stóriðja er útflutningur og alls sem þeir voru búnir að byggja upp í áraraðir, erum við að njóta, sérstaklega viðskiptasambanda þeirra. Því stöndum við sterkari fyrir vikið en hinar verksmiðjunar. Þá hefur Triton mikla og langa reynslu af niðursuðu og þekkingu á útflutningi og erlendum mörkuðum.“

Um 90% af allri lifur nýtt

Einar telur að verið sé að nýta nánast alla lifur sem til fellur við veiðar íslenskra skipa og báta. „Kannski ekki alveg 100%, en það er helvíti nálægt því. Þar skiptir miklu máli að Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra kom á löndunarskyldi á allri þorsklifur. 85 til 90% af lifur er hirt. Sú lifur sem ekki er hirt er af frystitogurum. Ástæðan er sú að lifrin er mjög erfið í frystingu og ekki síður uppþýðingu til vinnslu. Það er búið að gera tilraunir til þess sem ekki hafa gengið upp. Lýsi hf. hefur reynt að bræða þessa sjófrystu lifur í lýsi og við höfum reynt að sjóða hana niður. Það gengur bara ekki því við uppþýðingu verður hún vatnskennd og tapar öllum sínum eiginleikum og lítið verður annað en lýsi í dósunum eftir niðursuðu. Þetta er einfaldlega ekki hægt.

Jákvæða þróunin er að frystitogurunum hefur fækkað en ísfisktogurum fjölgað og því hækkar það hlutfall lifrar sem kemur til vinnslu og útflutnings. Menn vita líka betur en áður hvernig meðhöndla skuli lifrina um borð til að skila betra hráefni í land eftir að þessi nýju glæsilegu ísfiskskip eru að koma inn í flotann. Það er staðið miklu betur að öllum hlutum en áður og menn eru mjög meðvitaðir um að þeir eru að meðhöndla matvæli. Skýringin er kannski að hluta til sú hvað við eigum mikið af vel menntuðu og áhugasömu fólki innan sjávarútvegsins.“

Nota róbót í erfiðustu verkin

„Við erum töluvert tæknivædd hér í fyrirtækinu. Nú nýlega vorum við að taka fyrsta róbótann hér inn, sem léttir störf. Kannski verður það svo í framtíðinni að ekki þarf jafnmarga starfsmenn í vinnsluna vegna tæknivæðingar. En það er ekki svo að við séum að fara að segja upp fólki fyrir vélar. Störfin breytast og þau erfiðu felld út með aðstoð tækninnar. Í okkar tilfelli eru um að ræða róbóta sem sér um pökkun á dósunum. Sumum finnst það kannski ekkert erfitt að raða léttum kössum á bretti, en hjá okkur vega þessir litlu kassar 13 til 15 tonn samtals á dag, þegar upp er staðið. Það tekur í að raða mörg þúsund kössum á dag á bretti, þó þeir séu ekki nema 1,5 kíló hver. Þessa vinnu er róbótinn okkar að losa starfsfólkið við.“

Gott að hafa hagsmunasamtök verkstjóra

Einar er félagi í stjórnendafélagi Austurlands, sem svo er aðili að Verkstjórasambandi Íslands. Hann var framleiðslustjóri á Vopnafirði í 11 ár og hefur haldið tryggð sinni við það félag enda fæddur og uppalinn á Refstað í Vopnafirði. Hann segir að mjög gott sé að hafa svona hagsmunasamtök verkstjóra af ýmsu tagi, það séu ekki bara verkstjórar í sjávarútvegsfyrirtækjum sem séu í félögunum, þó svo hafi kannski verið hér áður fyrr. Þá sé rétt að nefna að Verkstjórasambandið eigi líklega einhvern sterkasta sjúkrasjóð, sem nokkur samtök eða stéttarfélög eiga. Það sé mjög sterkur barkhjarl fyrir félagana.

„Mér finnst Verkstjórasambandið og félögin innan þess hafa fylgst vel með breyttum tímum og lagað sig að aðstæðum. Þannig megi taka stjórnendafélag Austurlands þar sem komið er inn mikið af fólki, sem ber kannski ekki stöðuheitið verkstjóri, en eru stjórnendur eins og til dæmis í álverinu. Þess vegna finnst mér það rétt að breyta nöfnum félaganna úr verkstjórafélögum í félög stjórnenda. Þannig eru félögin og Verkstjórasambandið að fylgja þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í samfélaginu,“ segir Einar Víglundsson.
Viðtalið birtist fyrst í blaði Sambands stjórnendafélaga.

Myndir og texti Hjörtur Gíslason

 

Tryggvi Sæberg Einarsson er einn af þeim elstu sem starfandi eru í niðursuðu á Íslandi og kann það betur til verka en flestir aðrir.

 

 

 

 

Deila: