Fjárfestingar og framtíðarsýn hjá Vísi

Deila:

„Árið 2017 hefur verið viðburðaríkt hjá okkur í Vísi. Fyrir utan hefðbundinn rekstur hefur margt gengið eftir sem við stefndum að. Fyrr á árinu seldum við eign okkar í Kanada og er efnahagsreikningur félagsins er nú einfaldari og heilbrigðari.  Áfram hefur verið unnið með Marel að nýjum tæknilausnum í vinnslunni og kom ný gæðaskoðunarlína í hús í haust í stað hefðbundinnar snyrtilínu.“ Svo segir Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík í pistli á heimasíðu félagsins. Þar segir hann ennfremur:

„Í Póllandi er unnið að endurbygginu á gömlu Arney ex Skarðsvík. Ekkert er skilið eftir af gamla skipinu nema 2/3 af stálinu og er því nánast hægt að tala um nýsmíði. Mun það skip – sem gengið hefur undir vinnuheitinu Sævík – koma til landsins á miðju ári 2018  og leysa af hólmi Sighvat GK sem þjónað hefur okkur frá árinu 1980.  Í vikunni var svo skrifað undir samning um nýsmíði í stað Páls Jónssonar GK sem koma mun til okkar á miðju ári 2019. Jafnframt er í þeim samningi ákvæði um annað samskonar skip sem kæmi til landsins ári síðar ef við kjósum svo. Það skip myndi leysa Kristínu GK af hólmi.  Það eina sem þá væri eftir við endurnýjun flotans væri að Jóhanna færi í allsherjar klössun sem lyki á árinu 2021 en eins og menn muna kom Fjölnir GK endurbyggður til landsins fyrir rúmu ári. Gamli Fjölnir – eða Hrungnir eins og hann hét lengst af – fékk virðulega útför í Njarðvíkurslipp á miðju þessu ári eftir áratuga þjónustu og félagsskap við okkur.

Vísir hópurÁ sama degi og skrifað var undir nýsmíðina, 12. desember sl., var einnig skrifað undir samruna Vísis og Marvers ehf. sem gerir út Daðey GK. Með henni fylgja 1100 tonna veiðiheimildir sem styrkja landvinnsluna okkar sem því nemur. Palli Jói og Munda eru því komin með okkur af fullum krafti í þau verkefni sem framundan eru. Allt er þetta sérstaklega ánægjulegt og uppörvandi fyrir komandi ár og gert í trausti þess að rekstrarumhverfi greinarinnar verði samkeppnisfært á komandi árum. Við munum áfram treysta á íslenskt hugvit og þekkingu í uppbyggingu okkar, eins og við höfum gert með Marel, NAVIS og Raftíðni í ofangreindum fjárfestingum.“

 

Deila: