Engin áform um flutning á störfum fiskverkafólks úr landi  

Deila:

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir í pistli á heimsíðu samtakanna að engin áform séu um flutning á störfum fiskverkafólks úr landi. Metnaður íslenskra fyrirtækja fyrirtækja liggi í því að auka enn virði fiskafurða með vinnslu hér á landi, en ekki að flytja hana úr landi líkt og algengt sé í nágrannaríkjum okkar. Pistill Heiðrúnar er svohljóðandi:

„Velgengni íslensks sjávarútvegs má rekja til einstakrar framsýni og framtakssemi Íslendinga. Stjórnvöld, fyrirtæki og þeir starfsmenn sem leggja hug og hönd dag hvern til sjávarútvegs eru hvert og eitt ómissandi hlekkur í því að bjóða neytendum um allan heim hreina fiskafurð á heimsmælikvarða.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa mörg hver nýtt góð rekstrarskilyrði liðinna ára til að fjárfesta í nýjustu tækni í fiskvinnslu, sem þróuð hefur verið í samvinnu sjávarútvegs og íslensks þekkingariðnaðar. Metnaður þessara fyrirtækja liggur í því að auka enn virði fiskafurða með vinnslu hér á landi, en ekki að flytja hana úr landi líkt og algengt er í nágrannaríkjum okkar. Fjárfestingar í sjávarútvegi að jafnvirði 53 milljarða króna árin 2014 og 2015 eru skýr sönnun þessa metnaðar. Eskifjörður, Vopnafjörður, Bolungarvík, Hellissandur, Patreksfjörður, Akureyri, Grindavík, Neskaupstaður, Vestmannaeyjar og Reykjavík eru fáein dæmi þeirra miklu framfara sem orðið hafa eða eru í farvatninu í tæknivæðingu sjávarútvegs. Að þessu leyti stöndum við öðrum þjóðum framar og enginn vilji er til að breyta þeirri stöðu.

Enginn hefur farið varhluta af því að fordæmalaus styrking íslensku krónunnar hefur haft mikil áhrif á útflutningsgreinar til hins verra. Sjávarútvegur er þar ekki undanskilinn. Möguleikar fyrirtækja til að lifa af í erfiðum rekstrarskilyrðum við óbreytt gengi krónu eru takmarkaðir. Fræðilega gæti orðið minni vinnsla fiskafurða hér á landi. Enginn vill að sú verði þróunin. Að nefna að þessi staða gæti komið upp felur hvorki í sér hótun né staðhæfingu um að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafi áform um að hætta vinnslu hér á landi og láta fyrirtækjum í öðrum ríkjum það eftir. Það skal raunar tekið fram að ekki er vitað um nein slík áform. Ályktun stjórnar Alþýðusambands Íslands frá því í gær og umræður á þingi, þar sem þessum áhyggjum er lýst, eru því óþarfar.

Það er nauðsynlegt í ljósi þeirra erfiðleika sem steðja að útflutningsgreinum að hægt sé að eiga málefnalega og upplýsta umræðu þar sem öllum sjónarmiðum og sviðsmyndum er velt upp. Hvernig bæta megi ytri rekstrarskilyrði útflutningsgreina er brýnt úrlausnarefni. Það er sameiginleg ábyrgð stjórnmála, fyrirtækja, hagsmunasamtaka og verkalýðshreyfinga að leysa aðsteðjandi vanda eins vel og hægt er. Allir hafa þessir aðilar sömu hagsmuni – að hér á landi sé traustur sjávarútvegur sem skapar viðvarandi og fjölbreytt störf um land allt. Erfið núverandi staða verður síst betri við það að hver bendi á ábyrgð annars.“

 

Deila: