Um 350 skip og bátar fá makrílúthlutun

Deila:

Rétt tæplega 350 skip og bátar hafa fengið úthlutað makrílveiðiheimildum á þessu ári. Heimildirnar eru mjög mismiklar, allt frá nokkrum kílóum upp 11.000 tonn. Heildarkvótinn nú er 138.000 tonn eftir flutning á 14.000 tonnum frá síðasta ári. Í fyrra veiddust 159.000 tonn alls.

Á síðasta ári var mikið um flutning heimilda milli skipa. Allar heimildir skipa án vinnslu voru til dæmis fluttar yfir á skip með aflareynslu og aðeins nokkur skip í flokkum vinnsluskip nýttu heimildir sínar. Það sem ónotað var þar, var einnig flutt yfir á aflareynsluskipin. Færslur milli skipa eru enn ekki komnar inn á aflastöðulista Fiskistofu, enda nokkuð í að veiðarnar hefjist.

Þá ollu veiðar smábáta vonbrigðum og varð afli þeirra mun minni en vænst hafði verið. Lágt verð á makríl upp úr sjó réði miklu um sóknina í veiðarnar.

Aflareynsluskipin eru nú með heimildir til veiða á 105.000 tonnum með flutningi heimilda frá síðasta ári. Gera má ráð fyrir að heimildir þeirra verði enn meiri þegar gengið hefur verið frá flutningi heimilda milli skipa. Vinnsluskip eru samtals með kvóta upp á 21.900 tonn, skip án vinnslu með 5.400 tonn og smábátar (lína og handfæri) með 5.900 tonn.

Mestar heimildir allra skipa hefur aflareynsluskipið Vilhelm Þorsteinsson EA, 11.200 tonn, næst er Huginn VE með 9.000 tonn og síðan HB Grandaskipin Venus NS 7.600 og Víkingur AK 7.700 tonn.

Af vinnsluskipum er Brimnes RE með mestar heimildir, 2.000 tonn. Síðan kemur Hrafn Sveinbjarnarson með 1.900 tonn og þá Arnar HU og Vigri RE með 1.700 tonn hvort skip.

Í flokknum skip án vinnslu er Frosti ÞH með mestar heimildir, 512 tonn, en síðan koma þrjú skip með 192 tonn hvert skip; Sigurborg SH, Sóley Sigurjóns GK og Steini Sigvalda GK.

Af smábátunum eru 5 með meiri heimildir en 200 tonn hver. Efst er Fjóla GK með 292 tonn, næstur er Siggi Bessa SF með262 tonn, þá Dögg SU með 248 tonn, Jói á Nesi ÓF er með 233 tonn og Sæfari HU 222 tonn.

 

Deila: