Samherji greiðir aukna orlofsuppbót
Samkomulag hefur náðst um fjölda orlofsdaga og hækkun orlofsuppbótar starfsfólks í landvinnslum Samherja og verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju. Samkomulagið felur í sér að starfsfólki, sem er í fullu starfi 30. apríl nk., verður tryggður fullur orlofsréttur á yfirstandandi orlofsári. Að meðaltali fá starfsmenn um 5 orlofsdaga á fullum launum til ráðstöfunar í sumar vegna þessa. Því til viðbótar fá starfmenn sérstaka orlofsuppbót að upphæð 103.500 kr. til viðbótar við umsamda 46.500 kr. orlofsuppbót. Orlofsuppbótin í maí mun því verða 150.000 kr. til starfsmanna í fullu starfi.
Þetta kemur fram á heimasíðu verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju. Í upphafi sjómannaverkfalls kom fram í samtölum milli forsvarmanna Samherja og Einingar-Iðju að Samherji myndi tryggja öllum starfsmönnum, sem hefðu ekki rétt til atvinnuleysisbóta, fullar bætur í verkfalli. Nú að afloknu verkfalli hafa félögin farið yfir mál allra starfsmanna og lýsa því yfir að allir hafa notið fullra réttinda þann tíma.
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, er ánægður með framgöngu Samherja í þessu máli og segist vera mjög sáttur við samkomulagið sem tryggir félagsmönnum fullan orlofsrétt og umtalsvert hærri orlofsuppbót núna í maí.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja segir: „Verkfallið kom á erfiðum árstíma fyrir okkar starfsfólk og var langt. Ég er þakklátur fyrir að okkar ágæta starfsfólk hafi skilað sér til baka að loknu verkfalli sem var ekki sjálfgefið. Samstarfið við forsvarsmenn Einingar-Iðju og trúnaðarmenn starfsmanna var gott og þökkum við fyrir það.“
Á myndinni eru stjórnendur Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson.