Málstofa á morgun um þörungaeldi

Deila:

Á morgun flytur Karl Gunnarsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun erindi um þörungaeldi, í kerjum. Málstofan verður haldin klukkan 12:30 á jarðhæð á Hafró að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði. Henni er einnig streymt á Teams. Karl vinnur við rannsóknir á þörungum á Hafrannsóknastofnun bæði rannsóknir tengdum nýtingu þangs og þara úr náttúrulegum stofnum en einnig við eldistilraunir á nytjaþörungum. Karl stundaði nám í þörungafræðum við Parísarháskóla.

Erindið ber yfirskriftina: „Klóblaðka: þörungaeldi í kerjum á landi / Experimental, land-based seaweed culture”.

Hér fyrir neðan er ágrip um efni erindisins.

Á undaförnum árum hefur áhugi á nýtingu þörunga aukist verulega í heiminum. Náttúrulegir stofnar eru margir smáir og bera ekki mikla nýtingu. Eina leiðin til að nýta þá á sjálfbæran hátt er að rækta þá. Um þessar mundir er unnið að tilraunum til ræktunar þörunga í eldiskerjum á landi í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík. Sjór til ræktunar, sem hefur stöðugt hitastig, stöðuga seltu og stöðugan styrk næringarefna, er fenginn úr borholum. Megináherslan hefur hingað til verið á tilraunir með ræktun klóblöðku (Schizymenia valentinae) sem vex í fjörum við Suðvestur- og Vesturland, er góður matþörungur og hefur auk þess lækningamátt. Ræktunartilraunirnar ganga út á að finna bestu umhverfisaðstæður fyrir vöxt þörunganna hvað varðar hitastig og ljós. Einnig hafa verið gerðar tilraunir til að fjölga klóblöðku í rækt svo að ekki þurfi að safna þörungum úr náttúrulegum stofnum til að halda ræktinni við.

 

Deila: