Sjávarútvegsráðherra heimsótti sýningarbás HB Granda í Brussel

Deila:

Sjávarútvegssýningin Seafood Expo Global var opnuð í Brussel í gær og að vanda stendur starfsfólk HB Granda þar vaktina. Markmiðið er að kynna fjölbreytta framleiðslu HB Granda og dótturfyrirtækja og efla tengslin við helstu viðskiptavini félagsins og samstarfsaðila eins og segir í frétt á heimasíðu HB Granda.

HB Grandi er líkt og á fyrri sýningum með veglegan sýningarbás á sýningunni og stærri hóp starfsfólks en nokkru sinni áður eða alls 29 manns. Að sögn Brynjólfs Eyjólfssonar, framkvæmdastjóra markaðssviðs HB Granda, var mikið annríki á básnum í gær og fjölmargir fundir voru haldnir með  lykilviðskiptavinum og öðrum samstarfsaðilum.

,,Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heimsótti sýningarbás okkar í hádeginu. Hann gaf sér góðan tíma til að spjalla við Vilhjálm forstjóra og bragðaði á dýrindis karfasúpu,” sagði Brynjólfur Eyjólfsson

Seafood Expo Global er stærsta sjávarútvegssýning heims og er HB Grandi meðal fjölmargra sýnenda. Þetta er í 13. sinn sem félagið er með kynningu á afurðum sínum undir eigin nafni. Með í för er matreiðslumeistarinn Leifur Kolbeinsson á Marshall Restaurant+bar. Sýningarbás HB Granda er í sýningarhöll 6 og er númer hans 6-815.

Deila: