Mikið af kolmunna unnið fyrir austan

Deila:

Íslensk skip hófu veiðar á kolmunna í færeyskri lögsögu snemma í þessum mánuði. Fyrsta kolmunnanum eftir að veiðarnar hófust var landað í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði 12. apríl og í verksmiðjuna í Neskaupstað daginn eftir. Nú hefur verksmiðjan á Seyðisfirði tekið á móti 11.800 tonnum en Margrét EA landaði þar tæpum 1.900 tonnum sl. laugardag og Beitir NK tæplega 3.100 tonnum í fyrrinótt samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Verksmiðjan í Neskaupstað hefur tekið á móti 13.350 tonnum en Börkur NK var að landa þar 2.300 tonnum. Samtals hafa verksmiðjurnar því tekið á móti 25.150 tonnum frá því að veiðarnar í færeysku lögsögunni hófust en fyrr á árinu höfðu þær tekið á móti kolmunna sem veiddur var vestur af Írlandi.

Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri í Neskaupstað segir að kolmunninn sé gott hráefni til vinnslu og undir það tekur Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri á Seyðisfirði. „Það gengur mjög vel að vinna kolmunnann og vinnslan hefur verið samfelld að undanförnu. Við höfum stundum þurft að hægja dálítið á til að hafa vinnsluna samfellda. Þegar um kolmunna er að ræða skiptir kæling á aflanum um borð í skipunum öllu máli. Kolmunninn er viðkvæmt hráefni og það er ekki gott að geyma hann lengi eftir löndun, hann skemmist mjög hratt.  Það skiptir því miklu að fá hráefnið vel kælt úr skipunum og vinna það strax,“ segir Gunnar.

Deila: