Sindraskeljar nema land við Ísland

Deila:

Á undanförnum áratugum hefur orðið mikil aukning á flutningi sjávarlífvera af manna völdum út fyrir náttúruleg útbreiðslusvæði þeirra. Þetta kemur fram á vef Hafró, þar sem rakið er að þessar lífverur berist á milli hafsvæða með kjölfestuvatni skipa. Hér á landi hafi flestar framandi sjávarlífverur fundist við Suðveseturland, þar sem skipaumferð er mest.

„Megnið af aðfluttum sjávarlífverum sem hafa sest að hér við land hefur líklega borist frá Evrópu. Undantekning er grjótkrabbi (Cancer irroratus) sem fannst fyrst við Ísland árið 2006 en náttúruleg heimkynni hans eru við Atlantshafsströnd Norður-Ameríku. Grjótkrabbinn fannst í fyrstu eingöngu við Suðvesturland en hefur síðan dreift sér allt í kringum land,” segir í fréttinni.

Önnur tegund botndýra hafi nýverið fundist við landið, sem á upprunaleg heimkynni sín við Austurströnd Norður-Ameríku; skeldýr af ættkvísl hnífskelja (Ensis spp) sem fannst við Naustanes í Kollafirði árið 2019.

„Um er að ræða hníflaga skeljar sem grafa sig í sand, neðarlega í fjörum og á grunnsævi. Við nánari eftirgrennslan og leit kom i ljós að skelin hafði dreift sér víða í sandfjörum í innanverðum Faxaflóa, frá Leiruvogi í Kollafirði til Borgarfjarðar. Um þessar mundir eru þekktar 8 tegundir hnífskelja í Norður-Atlantshafi. Í mörgum tilfellum getur verið erfitt að greina á milli þeirra út frá útliti. Líklegast þótti að um væri að ræða tegund sem á upprunaleg heimkynni sín við Nýfundnaland sem var staðfest með erfðagreiningu. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi tegund finnst utan við upprunaleg heimkynni sín við Nýfundnaland. Tegundin (Ensis terranovensis) hefur fengið nafnið sindraskel.”

Nánar hér.

Deila: