Mikil og góð loðnuveiði

Deila:

Loðnuveiðarnar ganga nú af miklum krafti. Skipin fylla sig nánast jafnóðum og þau koma á miðin, sem eru nú við Reykjanesið. Loðnan hefur mest verið fryst fyrir markaði í Japan og Evrópu, en nú er hrognataka hafin. Loðnu er því landað á öllum þeim höfnum sem hafa búnað fyrir frystingu og hrognatöku, allt frá Þórshöfn suður með Austfjörðum að Hornafirði, þá í Vestmannaeyjum og vestur þaðan allt til Akraness.

Samkvæmt upplýsingum af aflastöðulista Fiskistofu er búið að veiða tæp 50.000 tonn af 186.000 tonna kvóta. Því eru óveidd samkvæmt listanum 136.000 tonn.
Tvö aflahæstu skipin nú eru Börkur NK með 6.680 tonn og Beitir með 5.171 tonn. Loðnan gengur svo fyrir Reykjanesið inn á Faxaflóa þar sem hún byrjar að hrygna og loks inn á Breiðafjörð þar sem hrygningu lýkur og loðnan drepst.

Þessa fallegu mynd af Jóni Kjartanssyni SU og Katrínu GK tók Eyjólfur Vilbergsson þegar flotinn var út af Grindavík í gær.

Deila: