Heiðrún hjólar í Svandísi

Deila:

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi skýtur föstum skotum að Svandísi Svavarsdóttir matvælaráðherra í pistli sem birtist á vef samtakanna. Þar rekur Heiðrún Lind allt það eftirlit sem sjávarútvegurinn sætir. Tilefnið eru greinar Svandísar þar sem hún hefur rætt um gagnsæi í sjávarúvegi.

Í niðurlagi greinarinnar segir Heiðrún:

Gagnsæi er að sönnu mikilvægt. Gagnsæi er forsenda trausts. En það skal viðurkennt, að það er afar óljóst af lestri fjölda greina sem matvælaráðherra hefur ritað um gagnsæi og traust í sjávarútvegi, hvað það er nákvæmlega sem á skortir af opinberum upplýsingum um sjávarútveg. Engin atvinnugrein, hvort heldur hér á landi eða á hinum alþjóðlega vettvangi sjávarútvegs, hefur jafn mikið magn upplýsinga aðgengilegt hverjum þeim sem vill afla sér frekari þekkingar.  

Kapp er best með forsjá, eins og sagt er. Það hefði ráðherra gjarnan mátt hugleiða áður en hún staðhæfði í nýjustu grein sinni að atvinnugreinin stæði vörð um leynd. Ekkert er fjær lagi, en kappið um að ala á vantrausti í garð atvinnulífs virðist hafa byrgt ráðherra sýn. Vel kann að vera, að á hinu pólitíska sviði sé svona málflutningur hefðbundinn. Hann skilar hins vegar engu í þeim raunveruleika sem snýst um að skapa verðmæti og störf fyrir þjóðarhag. Og hann skilar sannanlega engri sátt.

Greinina má í heild lesa hér.

Deila: