Segir Hollywood-stjörnum til syndanna

Deila:

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, er ekki par ánægður með Hollywood-stjörnur sem mótmælt hafa hvalveiðum Íslendinga. Það var Leonardo DiCaprio sem reið á vaðið og skoraði á Íslendinga að banna hvalveiðar alfarið, ellar yrði landið sniðgengið. Í hópinn hafa fleiri stjörnur bæst, svo sem Jason Momoa og Hillary Swank auk leikstjóranna Jane Campion, James Cameron og Peter Jackson. Undirskriftarlisti gengur nú á milli í henni Hollywood, þar sem hvalveiðunum er mótmælt með þessum hætti.

Vilhjálmur vill að þessar stjörnur líti í eigin barm. Raunar leggur hann til að leikararnir leggi sjálfir niður störf þar til byssulöggjöf Bandaríkjanna verður breytti. „Og já hræsnin í þessu liði er svo yfirgengileg að það hefur mestar áhyggjur af veiðum á 150 langreyðum við Íslandsstrendur. Ja hérna og þvílíkt rugl sem þetta er! Svo til að kóróna hræsnina í þessum Hollywood-stjörnum þá eru Bandaríkjamenn sjálfir að veiða hvali,“ skrifar hann.

Hann spyr hvort þetta fólk ætli að stjórna því hvernig Ísland nýtir auðlindir sínar. Þeim væri nær að líta sér nær. „Væri ekki nær fyrir þessar Hollywood-stjörnur að byrja á að taka til í sínum garði áður en þau fara að hóta okkur Íslendingum og segja okkur hvernig við eigum að nýta okkar sjávarauðlind.“

Deila: