Ásgeir Guðbjartsson látinn

Deila:

Ásgeir Guðbjartur Guðbjartsson, „Geiri á Guggunni“, skipstjóri og útgerðarmaður, lést í gær á Sjúkrahúsinu á Ísafirði á 89. aldursári.

Geiri á Guggunni

Ásgeir fæddist 31. júlí 1928 í Kjós í Grunnavíkurhreppi. Foreldrar hans voru Jónína Þ. Guðbjartsdóttir, húsfreyja, og Guðbjartur Ásgeirsson, formaður og útgerðarmaður.

Ásgeir flutti ungur með foreldrum sínum til Hnífsdals og síðan til Ísafjarðar þar sem hann ólst upp. Hann var nýfermdur þegar hann byrjaði fyrst til sjós og var á dragnót upp á hálfan hlut. Ásgeir vann um tíma hjá Norðurtanganum og við beitingu. Sextán ára gamall fór hann að róa upp á heilan hlut á línu-, troll- og síldarbátum.

Ásgeir tók hið minna fiskimannapróf á Ísafirði 1948 og byrjaði feril sinn sem skipstjóri á Bryndísi ÍS tvítugur að aldri. Þá hafði hann verið stýrimaður í tvö ár. Ásgeir tók hið meira fiskimannapróf í Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1965.

Hann stofnaði útgerðarfélagið Hrönn hf. á Ísafirði ásamt fleirum árið 1956 en það gerði út sjö báta og togara sem báru nafnið Guðbjörg ÍS. Útgerðin lét m.a. smíða fyrir sig frystitogara árið 1994 sem þá var talinn vera eitt fullkomnasta fiskiskip í heiminum. Ásgeir hætti til sjós árið 1995 þegar hann var 67 ára gamall. Þá var hann búinn að vera skipstjóri í meira en 45 ár.

Ásgeir var afburða aflamaður og harðsækinn. Hann var aflakóngur á Ísafirði á sextán vetrarvertíðum samfleytt og eins var hann oft aflakóngur á Vestfjörðum. Ásgeir var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 17. júní 1991.

Ásgeir kvæntist Sigríði Guðmundu Brynjólfsdóttur (f. 1931, d. 2009) á jóladag 1949. Þau eignuðust fjögur börn, Guðbjart, f. 1949, Guðbjörgu, f. 1950, Kristínu Hjördísi, f. 1952 og Jónínu Brynju, f. 1953.
Myndir Þorgeir Baldursson.

Deila: