Eldurinn kviknaði út frá vettlingaþurrkara

Deila:

Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að eldur sem kom upp í Grímsnesi GK í Njarðvíkurhöfn í apríl á síðasta ári hafi kviknað út frá vettlingaþurrkara. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar á vef hennar. Í skýrslunni er skelfilegum aðstæðum lýst og hvernig þeir sem björguðust komust upp á bryggjuna við illan leik.

Sjö úr áhöfn reyndust vera sofandi í skipinu. Voru allir fluttir á sjúkrahús og var einn þeirra úrskurðaður látinn. Einn var með reykeitrun og var honum haldið sofandi í rúma tvo sólarhringa en er á batavegi. Aðrir voru minna slasaðir.

Við rannsókn kom eftirfarandi fram:
• Mikill eldur var í skipinu og varð það alelda á stuttum tíma eftir að þeir sem björguðust voru komnir upp á bryggju. Á svipuðum tíma komu fyrstu viðbragðsaðilar á vettvang.
• Fyrstu björgunaraðilar slökkviliðs voru komnir á staðinn kl. 02:28. Fóru reykkafarar um borð í skipiðog fundu einn mann liggjandi meðvitundarlausan á efra þilfari þess.
• Reynt var að fara niður í skipið og leita að skipverja sem saknað var en eldur var þá orðinn það mikill að þeir þurftu frá að hverfa. Erfiðlega gekk að slökkva eldinn þar sem eldurinn var á milliþilfari skipsins og aðgengi því skert. Hitaleiðni var mikil sem orsakaði það að eldur kviknaði á nýjum stöðum meðan á slökkvistarfi stóð.
• Ekki var hægt að hefja rannsókn á upptökum brunans fyrr en 27. apríl 2023 af öryggisástæðum eða þar til vettvangur hafði kólnað það mikið að hann var talinn öruggur.
• Fjórir voru aftur í skipinu og þrír sváfu fram í skipinu.
• Tveir voru saman í klefa aftur í skipinu en hinir tveir í eins manns klefum og var gengið niður í alla klefana úr afturgangi skipsins sem lá frá matsal og stakkagangi stjórnborðsmegin yfir í bakborðsgang í gegn um rými sem í var niðurgangur í vélarrúm.
• Annar mannanna sem svaf í tveggja manna klefa vaknaði við hávaða og reyk. Hann vakti þann sem var
með honum í klefa.
• Hann vakti síðan þá sem voru í eins manns klefunum. Þeir voru fljótir að vakna og fóru upp stigann út í ganginn í átt að matsalnum. Þegar þeir litu út í stakkaganginn stjórnborðsmegin sáu þeir mikinn eldog reyk.
• Þeir sáu líka að það var ófært að fara upp í stýrishús en þangað var ekki hægt að sjá fyrir reyk. Þeir fóru því til baka og í gegnum rýmið þar sem gengið er niður í vélarrúm og yfir í bakborðsganginn. Stysta leiðin út þaðan er að fara aftur í skutrýmið og þaðan upp en þar sem þeir vissu af mönnum fram í skipinu þá ákváðu þeir að fara yfir milliþilfarið. Reykur var upp við loft en þeir komust undir hann.
• Annar mannanna fór og opnaði hurðina fram á upp á efra þilfar en hinn vakti mennina sem sváfu fram í skipinu. Allir komust síðan upp á efra þilfar fram á skipinu og þaðan upp á bryggju. Þegar mennirnir komu upp á efra þilfar sáu þeir hvar sá sem vaknaði fyrstur var að koma upp um mannopið stjórnborðsmegin aftur á. Þeir gátu síðar bent reykköfurum á staðinn þar sem skipverjinn lá.
• Sá sem vaknaði fyrstur ætlaði á eftir þeim tveimur sem voru á leið upp frá káetunum en áttaði sig þá á því að sá sem svaf með honum í klefa var ekki vaknaður, sneri hann þá við og vakti hann.
• Þegar þeir ætla upp stigann frá káetunum mætti þeim mikill reykur og eldur upp við loft. Þeir sneru viðog gátu opnað neyðarlúgu sem er bakborðsmegin í aftasta klefanum og komist þar upp.
• Neyðarlúgan er staðsett við hurðina úr bakborðsganginum og aftur í skutrými.
• Sá sem vaknaði fyrstur fór aftur í skutrýmið og yfir stýrisvélakassa sem var fremst í rýminu fyrir miðju og var þá kominn að stiga upp í gegn um mannop upp á efraþilfar.
• Hann hélt að klefafélaginn væri á eftir sér, en sá hann ekki en heyrði í honum þegar hann kallaði.
• Á þessum tíma var reykurinn orðinn svartur þannig að hann sá ekki til.
• Skipverjinn fór upp á efraþilfar til að ná andanum og fór aftur niður en náði ekki til mannsins sem var niðri.
• Hann komst aftur upp á efraþilfar þar sem hann lagðist niður til að vera undir reyknum og bankaði í dekkið til að reyna að leiðbeina manninum. Þar fundu reykkafarar hann meðvitundarlausan.
• Eldsupptök reyndust vera í stakkageymslu og var talið að kviknað hafi út frá vettlingaþurrkara.

Deila: