Útflutningsverðmæti skosks laxeldis eykst um 56 prósent
Útflutningsverðmæti skoskra laxeldisfurða hefur aukist um 56 prósent það sem af er þessu ári í samanburði við sama tíma í fyrra. Þar með slær skoskur laxeldisútflutningur enn eitt metið.
Þessu veldur ekki síst stór aukning á útflutningi til Frakklands sem og því að skoskur lax státar af viðurkenningu Label Rouge vörumerkisins sem þær vörur einar bera sem taldar eru skara fram úr. Skoskir laxaframleiðendur voru fyrstir til að fá þessa virtu viðurkenningu, utan Frakklands, eða fyrir 25 árum. Enn þann dag í dag eru þeir einu skosku matvælaframleiðendurnir sem geta státað af henni. Fá þessu er greint á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.
Frakkland er orðið stærsta markaðslandið
Útflutningsverðmæti skoska laxeldisins nemur það sem af er árinu um 67 milljörðum króna. Frakkland er núna orðið stærsta markaðslandið fyrir skoskan lax; stærra en Bandaríkin sem lengst af var mikilvægasti markaðurinn fyrir afurðir skosks laxeldis. Aðrir mikilvægir markaðir skosks laxeldis eru meðal annars Kína og Taiwan er einnig vaxandi markaður.
Mikilvægasta útflutningsgreinin á sviði matvælaframleiðslu
Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu er laxeldi mikilvægasta útflutningsgreinin á sviði matvælaframleiðslu í Skotlandi. Skotar vinna hörðum höndum að því að efla sitt laxeldi og stefna að tvöföldun þess. Feta þeir þannig sömu slóð og aðrar þjóðir sem stunda laxeldi, svo sem Norðmenn, Írar, Færeyingar, Kanadamenn og fleiri.
Skapa átta þúsund störf, einkanlega í hinum dreifðu byggðum
Forsvarsmenn laxeldisfyrirtækjanna í Skotlandi leggja áherslu á að til þess að ná markmiðum sínum þurfi atvinnugreinin á að halda öflugu fólki með fjölþætta menntun og reynslu. Hafa fyrirtækin lagt sig fram um að kynna atvinnugreinina fyrir ungu fólki sem er að leggja út á menntabrautina. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar enda býður fiskeldisstarfsemi upp á fjölþætt atvinnutækifæri.
Talið er að skoskt fiskeldi skapi nú um átta þúsund störf, að lang mestu leyti í hinum dreifðari byggðum við ströndina á vestanverðu Skotlandi.