Blængur millilandar

Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til millilöndunar í Neskaupstað í gærmorgun. Landað var úr skipinu í gær og hélt það síðan til veiða á ný. Mun veiðiferðinni væntanlega ljúka 29. þessa mánaðar. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og sagði hann að veiðiferðin hefði gengið vel til þessa. „Við fórum út 1. nóvember og aflinn upp úr sjó á þessum tveimur vikum var um 370 tonn að verðmæti 86 milljónir króna. Við höfum mest verið að veiða á grunnunum austur af landinu og uppistaða aflans er ufsi en hluti hans er karfi og grálúða. Það hefur verið heldur leiðinleg tíð nánast allan tímann – kaldaskítur. Þó hefur alltaf verið unnt að veiða ef undan er skilinn einn sólarhringur. Því miður virðist ekkert lát ætla að verða á þessum kaldaskít,“ sagði Theodór.

Deila: