Síldarlýsi með appelsínubragði

Deila:

Nú er hægt að fá síldarlýsi frá Margildi með vægu appelsínubragði undir merkjum Fisherman í verslunum Hagkaupa, Frú Laugu og fiskisjoppu Fisherman við Hagamel. Nýjustu fréttir eru að fyrsta pöntun frá Litháen til dreifingar í Eystrasaltsríkjunum er tilbúin til sendingar.

Síldarlísi frá Margildi

Áður hefur Margildi m.a. selt síldarlýsi til Bandaríkjanna og Noregs við góðar undirtektir. Fisherman hefur á undanförnum árum byggt upp skemmtilega og öfluga ferðaþjónustu á Suðureyri og framleiðir nú m.a. fiskrétti og ýmsar matvörur undir merki Fisherman.

Síldarlýsið frá Margildi er ríkt af Omega-3 fitusýrum, A-, D-, og E-vítamínum og hefur komið vel út í neytendaprófun vegna milds bragðs, sem og náttúrulegs stöðuleika. Síldarlýsið frá Margildi hlaut í sumar hin eftirsóttu iTQi „Superior Taste Award“ matvælagæðaverðlaun þar sem 135 alþjóðlegir meistarakokkar og matgæðingar voru sammála um að síldarlýsið væri góð matvara.

Margildi er frumkvöðlafyrirtæki sem er með aðsetur í húsnæði Matís að Vínlandsleið, hefur þróað nýja einkaleyfisvarða vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að fullvinna lýsi til manneldis úr uppsjávartegundum á borð við loðnu, síld og makríl. Margildi hefur unnið að nýsköpun sinni í nokkur ár í samstarfi við fjölmarga aðila og þar á meðal Matís, með styrkjum m.a. frá AVS, Tækniþróunarsjóði og Uppbyggingarsjóðum.

 

Deila: