Jarðsjó breytt í dýrindis drykkjarvatn

Deila:

Vinnslustöðin hefur tekið nýja sjóhreinsivél í notkun. Samskonar græja verður ræst hjá Ísfélaginu í vikunni. Á heimasíðun Vinnslustöðvarinnar er fullyrt að hreinsað vatnið sé ekki aðeins drykkjarhæft heldur frábærlega gott, eins og það er orðað í frétt á vef VSV.

Fram kemur að framkvæmdastjóri VSV, Sigurgeir B. Kristgeirsson, hafi verið efins um að vatnið úr hreinsigræjunni myndi reynast drykkjarhæft en að annað hafi komið á daginn.

Sjónum er dælt upp úr 20 metra djúpri borholu, hann hreinsaður með síum og rennur sem hreint drykkjarvatn í geyma. Úr geymunum er vatnið svo notað í fiskvinnslunni. „Við vatnsframleiðsluna fellur til saltur lögur, saltpækill, sem mögulega er verðmæt hliðarafurð til notkunar í saltfiskvinnslu VSV. Sýni verða tekin og þau rannsökuð frekar með þetta í huga á næstu dögum,” segir í fréttinni.

Fram kemur að fyrirtækið hafi keypt þrjá gáma með sjóhreinsibúnaði nýverið en Ísfélaginu hafi verið seldur einn þeirra. „Ef allir þrír gámarnir væru virkjaðir samtímis, og samskonar búnaður Laxeyjar líka, færi það langt með að anna allri vatnsþörf heimila og fyrirtækja í Vestmannaeyjum og það þó að uppsjávarvinnsla væri í gangi!”

Gámarnir eru frá hollenska fyrirtækinu Hatenboer Water. Búnaðurinn er rafdrifinn en notar lítinn straum. Reksturinn er því ekki dýr.

Myndin er fengin að láni af vef VSV. Myndina tók Addi í London

Deila: