Svanur RE fann líklega loðnu

Deila:

Svanur RE fann torfur sem líklega eru loðna suðaustur af landinu þann 13. febrúar síðastliðinn. Loðnuleit Hafrannsóknastofnunar hafði gengið afar treglega þrátt fyrir víðtæka leit. Samið var við íslensk uppsjávarskip að sigla eftir ákveðnum leiðum til og frá kolmunaveiðum við Færeyjar. Það bar árangur á fyrsta degi.

Fram kemur á vef Hafró að veiðiskipin Hákon EA og Hoffell SU hafi einnig orðið vör við lóðningar í nágrennninu um kvöldið. Ekki reyndist veður til að taka sýni úr lóðningunum til að fullvissa sig um að ekki væri um að ræða síld.

„Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er við sjórannsóknir á svipuðum slóðum og mun því gera stutt hlé á þeim til að fara til að magnmæla og taka sýni úr því sem líkur eru á að sé loðnuganga. Jafnframt hélt uppsjávarveiðiskipið Polar Ammassak áleiðis þangað í gærkvöldi frá Vestfjarðamiðum þar sem skipið hafði verið við loðnumælingar. Gert er ráð fyrir að mælingar skipanna geti hafist í kvöld og geti staðið yfir í tvo til þrjá daga,” segir á vef Hafró.

Deila: