Samdráttur í verðmæti þó afli aukist

Deila:

Aflaverðmæti íslenskra skipa í júlí var rúmlega 8,3 milljarðar króna sem er 11,7% minna en í júlí 2016. Fiskafli var rúm 73 þúsund tonn í júlí sem er 3% meira en í júlí 2016 samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands

Verðmæti botnfiskaflans í júlí nam tæpum 5,1 milljarði króna sem er 12% samdráttur samanborið við júlí 2016. Verðmæti þorskaflans nam 3,1 milljarði og dróst saman um 5,5% þrátt fyrir 22% aukningu í aflamagni. Aflaverðmæti uppsjávartegunda nam rúmum 1,6 milljarði samanborið við 2,3 milljarða í júlí 2016. Verðmæti flatfiskafla var tæpir 1,2 milljarðar króna í júlí sem er tæplega 23% aukning frá fyrra ári. Verðmæti skel- og krabbadýraafla nam 405 milljónum króna samanborið við 358 milljónir í júlí 2016.

Á 12 mánaða tímabili frá ágúst 2016 til júlí 2017 nam aflaverðmæti íslenskra skipa 111,5 milljörðum króna, sem er 18,8% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.

Þessar tölu Hagstofunnar staðfesta enn á nú þá umtalsverðu lækkun sem orðið hefur á verði fisks upp úr sjó. Þá lækkun má að miklu leyti tengja við styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum sem fiskurinn er seldur í, einkum pundi og evru, sem skilar sér í færri krónum heim. Afurðaverð ytra hefur þó haldið sér í erlendri mynt.

Í þessu tilfelli er athygliverðast að skoða þorskinn. Landanir á þorski jukust um 22% í mánuðinum miðað við sama tíma í fyrra, fóru úr 13.895 tonnum í 16.921 tonn. Þannig skilar aukning um 3.000 tonn milli mánaða 5% minni verðmætum miðað við júlí 2016. Verðmætin lækka úr 3,3 milljörðum í júlí í fyrra í 3,1 milljarð króna nú. Þannig dugir þessi mikla aflaukning ekki til að halda í horfinu hvað verðmætin varðar.

Sé litið á uppsjávarfiskinn fellur verðmæti hans 29,1%, fer úr 2,3 milljörðum í 1,6 milljarð.  Aflinn dróst á hinn bóginn aðeins saman 2%, fór úr 39.861 tonnum í 38.951 tonn. Það segir þó ekki nema hluta sögunnar, því töluverður aflasamdráttur varð í dýrustu tegundinni, makrílnum, en mest aukning í kolmunna, sem er ódýrastur enda fer hann í bræðslu en makríllinn til manneldis. Því ræður samsetning uppsjávaraflans miklu um heildarverðmætið, þó verð upp úr sjó hafi engu að síður almennt lækkað

 

 

Deila: