Veiddu stórþorsk í kolvitlausu veðri

Deila:

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum í vikunni. Á vef Síldarvinnslunnar er haft eftir Birgi Þór Sverrissyni, skipstjóra á Vestmannaey, að túrinn hafi verið fínn, þrátt fyrir að veðrið hafi verið leiðinlegt. Kolvitlaust veður hafi verið allan tímann. „Aflinn var langmest þorskur, stór og gullfallegur. Síðan var aðeins af ýsu og ufsa. Það er verið að skoða hvenær verður farið út á ný. Í sannleika sagt er spáin algert ógeð,“ segir Birgir Þór.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, var ánægður með veiðiferðina. „Við vorum á Ingólfshöfðanum allan tímann og þar var fínasta kropp. Aflinn var langmest stór og góður þorskur. Það eina sem skyggði á var veðrið. Það var í reynd hundleiðinlegt, haugasjór og allt upp í 30 metrar. Þetta var bara skítaveður. Við förum út í dag klukkan eitt eftir hádegi. Spáin er svipuð fyrir helgina en veðrið gæti farið að skána upp úr því,“ segir Ragnar.

Deila: