Færeyskir bátar með 5.400 tonn af þorski við Ísland
Færeyskir línu- og krókabátar veiddu á síðasta ári 5.392 tonn af bolfiski í íslenskri lögsögu. Þetta er aðeins meiri afli miðað við árið í fyrra sem var 5.230 tonn. Þorskaflinn er orðinn 1.815 tonn en á sama tíma í fyrra var hann 1.359 tonn. „Þess má geta að heimildir færeyskra skipa til þorskveiða innan íslenskrar lögsögu eru 1.900 tonn eins og undanfarin ár og nýttu færeysku skipin því 95,5% afla-heimilda í tegundinni á nýliðnu ári. Af öðrum tegundum má nefna að færeyskir bátar veiddu 1.392 tonn af ýsu og 1.039 tonn af löngu á nýliðnu ári,“ segir í frétt frá Fiskistofu.
Aflahæsti báturinn í bolfiski á nýliðinni vertíð var Klakkur með 800 tonn og því næst Eivind með 654 tonn en alls hafa þrettán færeyskir línubátar komið til veiða í íslenskri landhelgi á síðasta ár.
Loðnuafli færeyskra skipa á árinu er 8.767 tonn.
Norskir bátar veiddu 662 tonn af bolfiski á yfirstandandi vertíð, þar af er afli í löngu 230 tonn og keiluaflinn er 302 tonn. Loðnuafli norskra skipa er 50.571 tonn á vertíðinni.
Þá hafa grænlensk skip veitt 3.547 tonn af loðnu og 2.517 tonn af norsk-íslenskri síld.
Heildarafli erlendra skipa í lögsögunni á síðasta ári var rúm 78 þúsund tonn. Þetta er nokkuð minni afli en árið áður þegar aflinn var 126 þúsund tonn. Þessi samdráttur helgast fyrst og fremst af minni loðnuafla milli áranna. Árið 2015 veiddu erlend skip 120 þúsund tonn í lögsögunni en 72 þúsund tonn á síðasta ári.
Hér má skoða nánar skiptingu afla erlendra ríkja eftir tegundum og mánuðum, bæði aflatilkynningar til Landhelgisgæslunnar og nýjustu löndunartölur.
Á myndinni landar færeyski báturinn Núpur í Grindavík.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason