Stefnir í metár í kræklingaframleiðslunni

Deila:

„Fari sem horfir á þessu ári þá gæti framleiðsla á kræklingi hér á landi numið um 200 tonnum og það yrði sögulegt met,“ segir Elvar Árni Lund, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Fjarðarskeljar ehf. og formaður Skelræktar, sem eru samtök skelræktenda hér á landi. Ræktunarlínur Fjarðarskeljar eru í Hvalfirði en helstu ræktunarsvæði bláskeljar þess utan eru í Breiðafirði og Steingrímsfirði. Ræktun hefur einnig verið reynd við Voga og Keflavík, á sunnanverðum Vestfjörðum, í Eyjafirði og á Austurlandi.

elvar_arni_lund_litur

Íslenska tíðarfarið getur valdið usla

Bláskeljarækt hér á landi er mjög lítil grein og hefur orðið fyrir talsverðum áföllum í gegnum tíðina. Elvar Árni segir að íslenska tíðarfarið geti haft mikil áhrif; stormar og úthafsaldan geti valdið miklum usla en sömuleiðis leika hitastigið og sólfarið stórt hlutverk. „Ræktunartíminn hér fyrir sunnan getur verið alveg niður í 16 mánuði en er alla jafna um 2 ár eða lengri fyrir norðan. Það skýrist af lægri sjávarhita fyrir norðan. Sólarljósið hefur líka mikið að segja um framganginn í þörungaframleiðslunni, sjávarselta og fleiri þættir,“ segir Elvar Árni. „Munur á milli ára getur verið ótrúlega mikill. Nægir þar að nefna að sumarið 2015 einkenndist skelrækt í Hvalfirði af hægum vexti og skelin var illa undirbúin fyrir veturinn. Annað og gjörólíkt veðurfar einkenndi síðasta sumar og haustveður réðu ríkjum fram yfir áramót og skelvöxtur eftir því mikill.“

Reglugerð í vinnslu

Margir hafa reynt fyrir sér í kræk lingarækt hér á landi á undanförnum árum en orðið frá að hverfa þar sem fyrirtækin hafa verið lítil og viðkvæm fyrir áföllum og kostnaði. „Því miður eru ekki tiltækar upplýsingar um margt af því sem hefur verið reynt í þessari rækt hérlendis og þar af leiðandi hætt við að mistök eigi sér stað aftur, sem hefði verið hægt að forðast. Nauðsynlegt er að koma skipulagðri gagnasöfnun á. Árið 2008 var vinna vel á veg komin um tillögur um hvernig ríkisvaldið geti stutt við greinina en líkt og margt annað frá þessum tíma var það síðan lagt til hliðar um árabil. Við í Skelrækt fengum síðan áheyrn Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, árið 2015 og í framhaldi af því var skipaður starfshópur sem er langt á veg kominn að vinna reglugerð sem tekur á mörgum mikilvægum þáttum sem geta bætt starfsskilyrði kræklingaræktarinnar,“ segir Elvar Árni.

Vöktun á sjónum æskileg

Litið til framleiðslu á bláskel á heimsvísu er þessi atvinnugrein hér á landi örsmá. „Kræklingaeldi er þekkt mjög víða í nágrannalöndum okkar, til að mynda í Noregi, við Írland og víðar. Við getum að einhverju marki sótt þekkingu erlendis og samt sem áður getum við ekki yfirfært allt til Íslands vegna þess að sumt í okkar aðstæðum þekkist ekki annars staðar. Okkar eigin þekkingaruppbygging er því mjög mikilvæg,“ segir Elvar Árni og bendir á að víða erlendis hafi framleiðendur aðgang að nákvæmri vöktun á sjónum á ræktunarsvæðum skeljarinnar og geti þannig brugðist við breytingum í sjónum, t.d. hvað varðar seltu. „Þetta er eitt af því sem æskilegt væri að koma á fót hér á landi. Áhugann skortir ekki hjá stofnunum á borð við Hafrannsóknastofnun heldur liggur vandinn í því að fjármagn er ekki til staðar.“

Kostnaðarsamar sýnarannsóknir

Reglugerðir kveða á um að framleiðendur þurfa að senda sýni til rannsóknarstofa reglubundið til að tryggja sér uppskeruleyfi. Þessar rannsóknir eru alfarið erlendis enn sem komið er og kostnaður vegna þeirra því mjög mikill. „Núna er unnið að AVS verkefni sem gengur út á að þessar rannsóknir færist til Matís hérna heima og er Matís langt komið með að geta greint sumar tegundir eiturs nú þegar. Faggilding er þó ekki væntanleg fyrr en í haust, ef vel gengur. Með því yrði viðbragðstíminn mun styttri fyrir okkur framleiðendur og kostnaður við þetta ferli umtalsvert lægri. Greiningar sýna eru þessum litlu fyrirtækjum í kræklingaræktinni mjög mikill kostnaðarbaggi. Í nágrannalöndunum standa stjórnvöld hins vegar straum af þessum kostnaði þar sem litið er svo á að greining sýna og uppskeruheimildir í kjölfarið sé lýðheilsumál,“ segir Elvar Árni.

Nægir markaðir

Photos 28. okt 2009.  Myndrún ehf / Rúnar Þór fyrir Norðurskel Hrísey

Myndrún ehf / Rúnar Þór fyrir Norðurskel Hrísey

Kræklingaræktendur þurfa ekki að hafa áhyggjur af afsetningu afurða sinna. Markaðir eru nægir. „Sú framleiðsla sem hefur verið hér á landi að undanförnu hefur öll farið á innanlandsmarkað. Nær öll framleiðslan er ferskvara og það takmarkar svolítið tækifærin í útflutningi því líftími vörunnar er um 10 sólarhringar eftir að skelin er skorin af línunum. Reyndar er okkur að opnast nýr og áhugaverður valkostur þegar Smyril Line hefur fraktsiglingar frá Þorlákshöfn nú í vor. Þá gætum við sent skel utan á föstudagskvöld, skipað henni upp í Rotterdam á mánudagskvöld og hefðum síðan viku til að selja skelina úti. Það breytir miklu. Hins vegar er mikill markaður hér heima og eftirspurnin vex samhliða auknum ferðamannastraumi. Bláskeljaræktendur hafa því fyrst og fremst framleitt fyrir innanlandsmarkað og við vitum að mörg hérlend veitingahús gætu tekið við mun meira magni ef við náum meiri stöðugleika í greinina og framleiðsluna. Tækifærin hvað þennan hluta kræklingaræktarinnar varðar eru því fyllilega til staðar.“

Deila: