Vonast eftir Páli seinnipartinn í sumar
Vonir standa til að nýr Páll Pálsson ÍS komi til heimahafnar á Ísafirði í sumar. Þegar Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. tilkynnti nýsmíðin í júní 2014 var gert ráð fyrir að smíðin tæki 18 mánuði. „Þetta hefur dregist mikið og við vonum að hann komi seinnipart sumars,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG í samtali á bb.is. Páll er smíðaður í Huanghai skipasmíðastöðinni í Rongcheng í Kína eins og systurskipið Breki VE sem er í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Einar Valur segir að smíðin á Breka og Páli sé á sama róli.
Síðustu daga hefur verið unnið hörðum höndum að undirbúa Pál fyrir reynslusiglingu í Kína.
Þegar Páll verður tilbúinn úti í Kína tekur við löng heimsigling sem Einar Valur segir að taki líklega meira en 40 daga. Siglt verður yfir Kyrrhafið og um Panamaskurðinn, sömu leið og núverandi Páll sigldi fyrir rúmum 40 árum þegar hann kom nýr frá Japan.
Breki og Páll er 50,7 metrar að lengd og 12,8 metra breiðir. Vegna nýstárlegrar hönnunar á skrokkum skipanna og mun stærri skrúfu heldur en nú tíðkast á þessari stærð skipa, er áætlað að þau hafi um 60% meiri veiðigetu en þau skip sem þau leysa af hólmi án þess að eyða meiri olíu. Þá verða skipin búin þremur rafdrifnum togvindum og geta því dregið tvö troll samtímis.