Mikið óveitt af makríl

Deila:

Enn er mikið eftir af makrílkvótanum eða um 55.000 tonn. Heildarkvótinn er 176.000 tonn og 121.000 tonn komin á land. Þar eiga aflareynsluskipin bróðurpartinn eða 106.200 tonn. Engin skip í flokknum skip án vinnslu hafa stundað veiðarnar, aðeins 4 vinnsluskip hafa landað afla, tæplega 20 aflareynsluskip og 54 smábátar.

Í fyrra varð heildaraflinn um 159.000 tonn og 8.200 tonn voru flutt frá síðasta ári yfir á þetta. Því má gera ráð fyrir að mun meiri kvóti verði fluttur af þessu ári yfir á það næsta, en fljótlega fara uppsjávarveiðiskipin til veiða á norsk-íslenskri síld og íslenskri síld.

Í flokki vinnsluskipa skera tvö sig úr. Kristína EA er með 3.800 tonn og Brimnes RE með 3.600 tonn.

Í flokki aflareynsluskipa eru HB Grandaskipin með mest, Venus með 9.750 tonn og Víkingur með 9.140 tonn. Næst kemur Vilhelm Þorsteinsson EA með 7.880 tonn og Ásgrímur Halldórsson SF með 7.770 tonn.

Af smábátunum er Fjóla GK efst með 276 tonn, Brynja SH er með 274 og Andey GK með 260 tonn.

Deila: