Ægir helgaður útgerð smábáta

Deila:

Ægir, 3. tölublað 2022, er helgaður útgerða smábáta. Rætt er við skipstjóra á smábátum, bæði í krókakerfinu, á strandveiðum og grásleppu. Rætt er við Arthur Bogason, formann Landssambands smábátaeigenda og farið yfir horfur á fiskmökuðum í sumar.

„Fjórtánda ár strandveiða smábáta er hafið. Um öll kerfi má deila og líka strandveiðikerfið. Það sem hins vegar engum dylst sem með útgerð fylgist þá er þetta sá hluti hennar þar sem möguleikar fyrir ungt fólk að koma undir sig fótum í útgerð eru fyrir hendi. Með mikilli vinnu og eljusemi en vissulega þarf líka fleira að koma til, s.s. lánafyrirgreiðslur og fleira. Um þetta er vitnað í viðtölum hér í Ægi sem helgaður er smábátaútgerðinni að stærstum hluta. Enginn hefur sagt að strandveiðar séu dans á rósum og að þar renni tekjurnar fyrirhafnarlítið upp í fang smábátasjómanna. Og jafnvel þó þeir vilji sjálfir róa upp á hvern dag þá bæði útilokar fyrirkomulag kerfisins það og ekki síður veðrið, sú breyta sem hvað stærsta hlutverkið leikur í smábátaútgerð og hefur alltaf gert.“ Svo ritar Jóhann ólafur Halldórsson, riststjóri Ægis í leiðara blaðsins. Og ennfremur:

„Vegna skerðingar þorskkvótans á þessu fiskveiðiári munu mörg fiskiskip stöðvast þegar kemur fram á sumarið og fiskvinnslur taka mun lengra sumarleyfi en áður. Strandveiðiaflinn mun því verða mikilvægur fyrir viðskiptavini fiskmarkaða sem þurfa að uppfylla samninga við sína fiskkaupendur hérlendis og erlendis. Mörg fyrstu ár strandveiðanna var hávær umræða um að bæta þyrfti meðferð aflans og kælingu en úr því atriði eru þeir sem til þekkja sammála um að hafi verið bætt. Handfærafiskurinn frá standveiðibátunum sé því heilt yfir hið besta hráefni. Hið endanlega og fullkomna kerfi hefur ekki verið fundið fyrir strandveiðarnar, frekar en annað útgerðarform. Kerfið
hefur hins vegar undirstrikað mikilvægi smábátaútgerðarinnar í mörgum skilningi og það er vitanlega giska fráleitt annað en hægt sé að róa smábátum að sumarlagi á Íslandi í atvinnuskyni. Hvort heldur heitir strandveiðar eða eitthvað annað þá þarf grundvöllur fyrir útgerð smábáta að vera til staðar og
þeim hluta flotans þarf að tryggja hlutdeild. Eggjum er gott að dreifa í fleiri körfur.“

Deila: