Sátt um sjálft kerfið en alls ekki um skattlagningaráráttuna

Deila:

„Að halda því fram að sjávarútvegsfyrirtækin skili litlu sem engu er algjör fásinna og í raun er umræðan um atvinnugreinina ákveðið lúxusvandamál!“ sagði framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á almennum fundi í Reykjavík. Framkvæmdastjóri VSV var þar frummælandi líka.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS og Sigurgeir B. Kristgeirsson – Binni í Vinnslustöðinni höfðu framsögu á fundi um sjávarútvegsmál sem Málfundafélagið Óðinn boðaði til í Valhöll í Reykjavík í gær, laugardag 16. september. Fundarmenn höfðu sýndu dagskrárefninu mikinn áhuga, spurðu margs og ræddu málin við frummælendur í hálftíma eftir að hinum eiginlega fundi hafði verði slitið! Sagt er frá fundinum á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar með eftirfarandi hætti.

Heiðrún Lind fjallaði um stöðu sjávarútvegsins, markaðsmál, árangur fyrirtækja í greininni og skattlagningu þeirra.

Binni fór yfir 8 milljarða króna fjárfestingu Vinnslustöðvarinnar undanfarin þrjú ár, markaðssókn VSV og hvernig áherslur breytast við það að hlusta á raddir viðskiptavina og markaðarins.

„Hreinn skandall“ að lækka ekki tryggingagjaldið

Hvorugur frummælandi neitaði sér um að láta Sjálfstæðisflokkinn heyra það þrátt fyrir að standa í ræðustóli í sjálfum höfuðstöðvum flokksins þar sem ráðherrar hans og alþingismenn þyrptust að á sama tíma til krísufunda á efri hæðum Valhallar vegna slita ríkisstjórnarinnar.

Heiðrún Lind benti á að kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti hafi numið tveimur milljörðum króna 2015 en í fjárlagafrumvarpi vegna ársins 2018 væri gert ráð fyrir tvöfalt meiri tekjum af því, fjórum milljörðum króna.

„Kolefnisgjaldið er afar íþyngjandi og með einu pennastriki á svo að tvöfalda það og auka enn álögur á sjávarútveginn, atvinnugrein sem hefur náð því nú þegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%, markmiði sem á að nást árið 2030 samkvæmt Parísarsamkomulaginu.“

Heiðrún Lind vék líka að tryggingagjaldinu sem skilar ríkissjóði 5,8 milljörðum króna og var hækkað á sínum tíma vegna atvinnuleysis í kjölfar bankahrunsins. Nú er atvinnuleysið úr sögunni en þess sjást ekki merki í tryggingagjaldinu:

„Ég segi það bara hreint út hér í Valhöll og beini því til Sjálfstæðisflokksins: Að tryggingagjaldið hafi ekki verið lækkað er hreinn skandall!“

Ríkisforsjárhyggjan sáir sér í Sjálfstæðisflokknum

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson.

Binni tók upp þennan sama þráð í sínu erindi. Hann rifjaði upp að árið 1992, þegar hann kom fyrst til Vestmannaeyja, voru sjávarútvegsfyrirtækin þar svo illa stödd að til undantekninga heyrði að þau greiddu skatta. Vinnslustöðin átti til að mynda svo mikið uppsafnað tap að hún borgaði fyrst skatta árið 2007.

„Fram að þeim tíma var félagið á hnjánum og gat ekki einu sinni borgað skatta, hvað þá veiðigjöld.

Það skiptir öllu máli að skapa meiri verðmæti til að styrkja fyrirtækin og samfélög þeirra. Öflug fyrirtæki og arðsamur rekstur skilar þjóðarbúinu meiru en umræðan snýst aðallega um hvernig hægt sé að skattleggja sjávarútvegsfyrirtækin enn frekar!

Stóraukin skattlagning er meðal annars rökstudd með því að afla þurfi tekna til að skapa nýjar ríkisstofnanir sem eiga að rannsaka, þróa og markaðssetja sjávarafurðir. Hvernig í ósköpum má það vera að þessi hugsun sé meira og minna komin inn á gafl í Sjálfstæðisflokknum, hugmyndir um að skattleggja allt í drep og láta ríkið sjá um allan fjandann!“

Þessi ummæli Binna féllu í góðan jarðveg í Valhallarsalnum og fengu bæði þétt lófatak og „heyr heyr“ því til staðfestingar.

Gjörbreytt markaðsmál VSV

Binni rakti grundvallarbreytingar í markaðsmálum Vinnslustöðvarinnar og breytt viðhorf að flestu leyti þar að lútandi.

„Við seldum áður nær allt í gegnum sölusamtök en höfum nú sett upp eigið sölunet um víða veröld með góðum árangri. Það sést best á því að þegar Rússlandsmarkaður lokaðist á einni nóttu árið 2015, markaður sem skilaði um 20% tekna VSV, gátum við flutt okkur til Asíu og selt allt þar sem annars hefði farið til Rússlands.

Japansmarkaður skilar okkur núna 12% tekna fyrirtækisins en 3% áður. Frá Kína koma 2% tekna okkar en ekkert áður. Við seljum nú til Suður-Kóreu, Taiwan og Filippseyja en ekkert áður. Þannig mætti áfram telja.

Kínverjar eru byrjaðir að kaupa loðnuafurðir og munu kaupa miklu meira á næstu árum. Kínamarkaður er flókinn og við verðum einfaldlega að gera okkur klára fyrir hann. Það þarf að hlusta og læra til að ná árangri í markaðsstarfi og viðskiptum.“

Sjávarútvegsfyrirtækin borga tvöfaldan tekjuskatt!

Heiðrún Lind vitnaði í breska sendinefnd sem kom hingað til lands fyrir skömmu til að stúdera fiskveiðistjórnarkerfið íslenska og undirbúa að Bretar segi skilið við Evrópusambandið innan tíðar og taki um leið einir við stjórn fiskveiða í lögsögu sinni. Það vakti sérstaka athygli bresku gestanna hve víðtæk sátt hefur skapast á Íslandi um fiskveiðistjórnarkerfið en eftir standa deilur um skattlagninguna, veiðileyfagjöldin.

Árið 2015 námu beinir skattar og gjöld á sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi alls um 25 milljörðum króna,  þar af var tekjuskattur 9,3 milljarðar og veiðigjöld 7,5 milljarðar.

„Veiðigjöldin nálguðust að vera jafnhá tekjuskattinum og því má segja að sjávarútvegsfyrirtækin greiði tvöfaldan tekjuskatt. Fá dæmi eru um önnur fyrirtæki sem sæta slíkri gjaldheimtu af hálfu hins opinbera.

Alger fásinna er að halda því fram að sjávarútvegsfyrirtækin skili litlu sem engu til samfélagsins en þannig er talað og umræðan ákveðið lúxusvandamál. Í flestum öðrum ríkjum er rætt um hvort sjávarútvegsfyrirtæki geti skilað einhverju til samfélagsins. Ísland var hins vegar lengi vel eina landið í OECD þar sem sjávarútvegurinn er sjálfbær og skilar ríkinu fjármunum en ekki öfugt. Í fæstum ríkjum eru veiðigjöld innheimt.

Launakostnaður er hár á Íslandi og hefur aukist stórlega. Við erum í ótrúlega harðri samkeppni á mörkuðum sem kom berlega í ljós þegar krónan styrktist á skömmum tíma. Mörg fyrirtæki eiga í erfiðleikum vegna þess að tekjur standa ekki undir kostnaði við útgerð og fiskvinnslu. Ég bið stjórnmálamennina gjarnan um að bæta nú ekki við heimatilbúnum vanda ofan á þetta með óhóflegri skattheimtu.“

 

Deila: