Landa tvisvar í viku fyrir vinnsluna

Deila:

„Við löndum tvisvar í viku eins og fyrirkomulagið er núna. Við megum megum veiða heilmikið af þorski. Við sjáum vinnslu Skinneyjar-Þinganess í Þorlákshöfn fyrir hráefni. Þeir vinna fimm daga vikunnar og okkar hlutverk er að sjá þeim fyrir hráefni. Þeir eru að vinna fiskinn ferskan í flug og frysta og hafa verið að þróa sig áfram og auka vinnsluna, sem þeir keyptu fyrir tveimur árum. Komnir með vatnsskurðarvél og annan háþróaðan vinnslubúnað.“

Þetta segir einar Kristinn Haraldsson, stýrimaður á Steinunni SF. Hann er fæddur og uppalinn Grindvíkingur og kominn af sjómönnum í annan legginn allavega.

Byrjaði 16 ára á sjó

„Ég byrjaði 16 ára á línu á Hrungni hjá Vísi í Grindavík árið 2013 . Pabbi var stýrimaður þar um borð og Þórður Pálmason skipstjóri. Árið 2005 fór ég á Jóhönnu Gísladóttur hjá sömu útgerð og var þar í um eitt og hálft ár.  Þá lá leiðin á frystitogarann Hrafn GK, Hrafn föðurlausa, eins og hann var kallaður. Þar var ég þar til í ágúst 2008. Þá fór ég á Steinunni SF frá Skinney-Þinganesi á Hornafirði og hef verið þar síðan. Það eru orðin níu ár, segir Einar.“

Einar var að vinna í skipstjórnarnáminu utan skóla á þeim tíma og tók svo einn vetur frí á sjónum og fór í skólann og kláraði annað stigið. Síðan hefur hann verið annar og fyrsti stýrimaður í rúm tvö ár. Hann lætur vel af því að vera á trolli á Steinunni. Segir að það sé góður bátur og hann kunni vel við þessa útfærslu á sjómennsku. Þeir eru 12 á og ganga 16 tíma vaktir.

steinunn sf

Tæpan sólarhring að fylla skipið

„Við erum að sækja í þessar hefðbundnu þorskslóðir eftir árstíðum. Erum  hérna fyrir sunnan á Selvogsbankanum og kringum Eyjarnar á veturna og afganginn af árinu erum við nánast eingöngu á Vestfjarðamiðum. Kíkjum reyndar líka aðeins í Breiðafjörðinn.

Vel hefur gengið að veiða að undanförnu og ekkert mál hefur verið að landa nægu hráefni fyrir vinnsluna tvisvar í viku. Þegar við erum fyrir vestan löndum við í Reykjavík og Grundarfirði, en fyrir sunnan löndum við í Þorlákshöfn. Vinnslan stólar á að fá fisk til vinnslu á mánudags- og fimmtudagsmorgnum. Það hefur gengið vel en svo á eftir að láta á það reyna hvort þetta gengur allt árið. Þegar besta veiðin er, erum við ekki nema tæpan sólarhring að fylla skipið. Það fer eiginlega bara eftir því hvað mannskapurinn hefur undan. Það væri oft hægt að fá mun meira ef hægt væri að ganga frá því um borð.  Fullfermi hjá okkur er í kringum 60 tonn.“

Virðist nóg af þorski

Einar segir að svo virðist vera sem nóg sé af þorski í sjónum, hann sé að finna mjög víða. Það sé lítið vandamál að ná honum. Þeir sem séu að reyna við aðrar tegundir eigi frekar í vandræðum með að fiska í sig. Það sé fullt að bátum sem þurfi að forðast þorskinn og fá mikinn meðafla með honum. „Við erum bara heppnir að fá að einbeita okkur að þorskinum.“

„Mér finnst þorskurinn alltaf vera fyrr á hrygningarslóðinni hérna við Reykjanesi og það segja fleiri. Það er mikið af góðum fiski víða og stór svæði sem enginn fer á á vertíðinni þó þar sé vafalitið mikið af þorski. Hann er mjög góður á grunnslóðinni fyrir vestan og ef maður fer svo út í kantana, þá er þar bara önnur stærð, bara eftir því hvað hentar fyrir vinnsluna hverju sinni. Maður getur fengið alveg helling af tveggja til þriggja kílóa fiski og eins er hægt að fá  ágætt af stærri fiski, eftir því sem hentar hverju sinni.

Það er nokkurn veginn hægt að ákveða þegar við förum út hvort við ætlum að taka smærri eða stærri fisk. Það fer reyndar svolítið eftir veðri og vindum hvert er hægt að fara. Maður er kannski ekki að bjóða þessu skipi slæm veður. Það er ekki stórt.“

Enginn Hornfirðingur um borð

Þó Steinunn sé skráð á Hornafirði og fiski fyrir vinnsluna í Þorlákshöfn, er enginn Hornfirðingur um borð, reyndar einn í afleysingum núna. Mannskapurinn er frá Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu,  Hveragerði, Akranesi, Grundarfirði og Stykkishólmi. Báturinn er lítið í heimahöfn, þeir lönduðu þar eitthvað smávegis eitt haustið. Annars er landað í Þorlákshöfn, Reykjavík og Grundarfirði.

„Það skiptir sjómanninn litlu máli hvar báturinn er skráður og útgerðin hefur eiginlega litið á Reykjavík og Þorlákshöfn sem heimahafnir.  Þetta gengur bara vel og menn róa svona bara eftir samkomulagi, ekkert kerfi á því. Menn fá frí þegar þeir þurfa og róa annars.

Ég kann vel við mig á sjónum. Þekki eiginlega ekkert annað og sé ekki fram á annað en að halda því áfram. Veit ekki alveg hvað ég ætti að gera annað þó launin hafi lækkað mikið að undanförnu í þessu svokallaða góðæri. Það finna allir sjómenn og alltof margir góðir sjómenn eru að gefast upp á þessu og hætta og það er synd,“ segir Einar.

Einar er með stóra fjölskyldu, konu og fimm börn og segir að vissulega sé erfitt að vera mikið frá henni. En hann kunni vel við sína stöðu nú, því hann sé oft í landi. Aldrei langdvölum í burtu og þurfi hann frí, sé aldrei langt í land komi eitthvað upp á.

Deila: