Jafnlaunamerkið á leiðinni

Deila:

Úttekt fulltrúa BSI á Íslandi sem er faggiltur vottunaraðili á jafnlaunastaðlinum lauk í síðustu viku. „Niðurstaðan er afar ánægjuleg því mælt hefur verið með því að HB Grandi fái jafnlaunavottun og um leið heimild til að nota jafnlaunamerkið. Fer nú í gang formlegt útgáfuferli og má því ætla að HB Grandi geti farið að nota jafnlaunamerkið á vordögum,“ segir í frétt frá HB Granda.

„HB Grandi er þriðja íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem hlýtur jafnlaunamerkið en það er fyrsta skref við innleiðingu jafnlaunakerfis félagsins. HB Grandi vinnur að því að skapa eftirsóknarverðan vinnustað og hluti af því er að halda kynbundnum launamun innan við 5%. Þegar litið er til heildarlauna og tekið tillit til helstu þátta sem hafa áhrif á laun þá eru konur með 2,32% lægri laun en karlar. Það hallar því á konur og verður áfram unnið að því að eyða launamun kynja hjá HB Granda.
Sá áfangi að fá jafnlaunamerkið er árangur af mikilli og góðri samvinnu margra starfsmanna HB Granda en auk þess hefur félagið notið aðstoðar frá Attentus sem er ráðgjafafyrirtæki í mannauðsstjórnun,“ segir ennfremur í fréttinni.

Deila: