Krefjast áframhaldandi laxeldis við Ísafjarðardjúp
Fjölmennur íbúafundur haldinn á Ísafirði í gær samþykkti samhljóða ályktun þess efnis að laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi. Á sjöttahundrað mættu á fundinn og voru umræður líflegar og fróðlegar. Í pallborði að loknum ávörpum sátu bæjarstjórar sveitarfélagana á Vestfjörðum sem áttu heimangengt og fjórir ráðherrar.
Það voru þrjú málefni til umræðu, í fyrsta lagi vegagerð í Gufudalssveit en þar hefur staðið styr um vegstæði í tólf ár og hvorki gengur né rekur, í öðru lagi raforkumál á Vestfjörðum og þá sérstaklega hringtenging Vestfjarða og í þriðja lagi um hvort laxeldi skuli leyfast í Ísafjarðardjúpi.
Ályktun fundarins er hljóðandi:
„Borgarafundur á Vestfjörðum 24. september 2017 vill að mat á samfélagslegum áhrifum verði í framtíðinni lagt til grundvallar stórframkvæmdum og lagasetningu þegar það á við.
Jafnframt setur fundurinn fram eftirfarandi þrjár kröfur:
– Ráðist verði strax í vegagerð í Gufudalssveit samkvæmt leið Þ-H (um Teigsskóg), vegna brýnna hagsmuna sveitarfélaganna, atvinnulífsins og íbúa
– Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum.
– Laxeldi verði áfram heimilað í Ísafjarðardjúpi og í því ljósi setji stjórnvöld fram, fyrir árslok, ákvæði um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að verja laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi gegn hugsanlegri hættu á erfðablöndun.“
Ljósmynd: bb.is