Tugmilljarða verkefni fyrir íslensk fyrirtæki í sjónmáli í Rússlandi

Deila:

„Það er ekkert fast í hendi fyrr en skrifað hefur verið undir samninga en ég er bjartsýnn á að samið verði um nokkur stór verkefni í Rússlandi innan ekki langs tíma. Þarna er um að ræða raðsmíðaverkefni í nýsmíðum skipa og landvinnslu fyrir tugi milljarða króna sem kæmu til með að skipta verulegu máli fyrir þessi íslensku fyrirtæki. Lykilforsendan er að þau standa saman að þessu markaðsstarfi og koma fram sem ein heild gagnvart viðskiptavinum,“ segir Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Knarr Maritime sem stofnað var fyrr á árinu.

Fyrirtækið er sameiginlegur markaðsvettvangur nokkurra íslenskra þjónustu- og hátæknifyrirtækja í sjávarútvegi og hefur áherslan á fyrstu mánuðum starfseminnar beinst að Rússlandi en fyrirspurnir hafa einnig borist nú þegar til Knarr Maritime frá t.d. Kína, Kanada og Noregi. Fyrirtækin sem standa að Knarr Maritime eru Brimrún sem selur fiskileitar-, siglinga- og fjarskiptabúnað í skip, Kælismiðjan Frost sem er sérhæft í kæli- og frystibúnaði, Skaginn 3X sem er framleiðir vinnslubúnað í skip og landvinnslu, Naust Marine sem framleiðir vindubúnað og vindustjórnunarkerfi fyrir skip og hönnunar- og verkfræðifyrirtækin Nautic og Skipatækni sem hönnuðu sjö af þeim nýju ferskfisktogurum sem komu og eru að koma til landsins á þessu ári.

Drifkrafturinn nýtt fyrirkomulag kvótaúthlutunar

Ástæða þess að horft er til Rússlands nú er sú að á fyrri hluta næsta árs munu stjórnvöld þar í landi endurúthluta fiskveiðikvótum en 10 ára úthlutunartímabili mun þá ljúka. Boðað er að úthlutað verður 80% kvótans á nýjan leik en nú til 15 ára. Fyrirtækin geta hins vegar endurtryggt sér verulegan hluta skerðingarinnar gegn því að ráðast í endurnýjun í skipaflota sínum og landvinnslum. Í því liggur tækifæri íslensku fyrirtækjanna.

„Um 70% fiskveiðikvótanna eru í Austur-Rússlandi og þar höfum við verið á ferðalögum síðustu mánuði, hitt forsvarsmenn fyrirtækja, rætt við skipasmíðastöðvar og kynnt það sem við höfum fram að færa. Það eru margir að sækja á þennan markað, enda eftir miklu að slægjast. Norðmenn hafa lengi haft ítök í rússneska markaðnum en við skynjum mikinn áhuga Rússa á þessum nýju íslensku skipum. Hönnun þeirra vekur gríðarlega mikla athygli, sem og þær tækni- og hönnunarlausnir sem eru í skipunum. Sama gildir um lausnir sem þessi fyrirtæki hafa komið fram með í landvinnslum síðustu ár, t.d. í vinnslu á uppsjávarfiski og bolfiski,“ segir Haraldur en hugmyndin er að bjóða rússneskum útgerðum hönnun skipa, vinnslubúnað og tæknilausnir.

Allt upp í 100 metra nýstárleg frystiskip

„Hvað skipin varðar er áherslan mest á stóra frystitogara og nýja  gerð fjölveiðiskipa sem geta í senn veitt með hringnót, flottrolli og botntrolli, allt frá 55 metra upp í 100 metra skip. Við höfum kynnt okkur vel veiðiaðferðir í Rússlandi og þær þarfir sem þeir hafa og einnig hafa komið hingað til lands fulltrúar útgerða til að skoða nýju íslensku togarana og nýjustu tæknilausnirnar í landvinnslum. Það er eftir því tekið sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Haraldur en verði af verkefnunum í Rússlandi er ljóst að margir íslenskir starfsmenn fyrirtækjanna koma til með að fylgja þeim eftir á næstu árum. „Ég hef starfað í viðskiptum í Rússlandi síðustu 20 ár og veit að þeir eru traustir og góðir  viðskiptavinir. Öll hafa þessi íslensku fyrirtæki að baki Knarr Maritime aflað sér mikillar reynslu í erlendum verkefnum á síðustu árum og þau hafa alla burði til að standa sig vel á markaði í Rússlandi, sem annars staðar.“

Þekkingarauðlind í sjávarútvegi á Íslandi

Haraldur segir einnig mikinn áhuga fyrir þessari nýju skipahönnun

á Íslandi og vonast hann til þess að íslenskar útgerðir haldi áfram að nota sér íslenska hönnun og styrki þannig innviði íslenskra tæknifyrirtækja til áframhaldandi góðra verka. Erlendar útgerðir horfi mjög til þess sem íslenskar útgerðir eru að gera þar sem þær séu í fararbroddi í heiminum í að hámarka gæði aflans með nýjustu tækni.

„Það er því mjög æskilegt að íslenskar útgerðir haldi áfram að styðja vel við bakið á þessum íslensku skipahönnuðum og tæknifyrirtækjum. Þekking þeirra er sprottinn upp af íslenskri auðlind og er í sjálfu sér mikilvæg íslensk auðlind með mikla útflutningsmöguleika. Öll þessi tækifæri munu skapa fjölda starfa hér heima sem og erlendis enda eigum við mikið af hæfu fólki sem getur tekið að sér slík verkefni bæði til sjós og lands.“

Myndatexti:
Íslensk skipahönnun og tæknibúnaður hefur vakið gríðarlega athygli um allan heim fyrir framúrstefnulega hönnun sem í senn bætir sjóhæfni, vinnslugetu og skilar betri aðbúnaði sjómanna. Hér má sjá 81 metra langan frystitogara og 16 metra breiðan fyrir rússneska aðila en fleir hyggjast smíða nokkur slík skip.

Um þetta verkefni er fjallað í Sóknarfæri, blaði sem Athygli gefur út og er dreift er með Morgunblaðinu í dag. Sóknarfæri má sjá á eftirfarandi slóð: https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_3tbl_2017_100?e=2305372/54642372

 

 

 

Deila: