Tilhæfulausar ásakanir um samráð kaupenda!
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu, vegna ummæla Axels Helgasonar, formanns Landssambands smábátaeigenda á Bylgjunni í gær, þess efnis að fiskverð væri lágt á fiskmörkuðum vegna samráðs kaupenda:
„Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, fór mikinn í fréttum Bylgjunnar í morgun og í hádeginu með órökstuddar ásakanir um að kaupendur á fiskmörkuðum hafi með sér samráð. Hann gaf til kynna að kaupendur sameinuðust um innkaup í gegnum einn aðila í stað þess að bjóða í fiskinn hver í sínu horni. Tilefni þessara orða formannsins er að fiskverð hefur á þessu ári verið lægra á íslenskum mörkuðum en undanfarin ár.
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) hafna aðdróttunum formanns smábátaeigenda og vilja koma á framfæri að því fer fjarri að margir kaupendur sameinist um að láta einn aðila bjóða í fisk á íslenskum mörkuðum.
Hver kaupandi á fiskmörkuðum hefur eigið númer á markaði. Á bak við það númer er bankaábyrgð sem tryggir að viðkomandi aðili geti gert upp viðskiptin í samræmi við reglur fiskmarkaðanna í gegnum Reiknistofu fiskmarkaðanna. Ef einn aðili sæi um innkaup fyrir marga yrði sá hinn sami að nota eigin ábyrgð til að tryggja uppgjör á viðskiptum fyrir aðra, án þess að hafa tryggingar á móti. Slíkt er vitanlega fráleitt.
SFÚ benda á að verð á íslenskum fiskmörkuðum er mjög háð verði á erlendum mörkuðum og gengi krónunnar gagnvart gjaldmiðlum útflutningsmarkaða íslenskra sjávarafurða. Fyrir einu og hálfu ári var gengi breska sterlingspundsins nálægt 200 kr. Eftir Brexit féll það og fór niður í u.þ.b. 124 kr. Svipað gildir um aðra helstu útflutningsmarkaði Íslands þó að hvergi hafi þróunin verið jafn óheillavænleg og í Bretlandi. Styrking íslensku krónunnar veldur verðlækkun á íslenskum fiskmörkuðum, en ekki ímyndað samráð kaupenda á markaði.
Langvarandi sjómannaverkfall á síðasta vetri olli miklum búsifjum hjá aðildarfyrirtækjum SFÚ. Fyrirtækin voru því að verkfalli loknu illa stæð til að keppa um dýrt hráefni á fiskmörkuðum. Margir sjálfstæðir fiskframleiðendur hafa neyðst til að draga saman seglin og minnka framleiðslu og útflutning, jafnframt því sem þeir endurskipuleggja fjárhagslegan grundvöll starfsemi sinnar. Vitanlega hefur þetta áhrif á fiskmörkuðum. Þegar fjárhagslegur veikleiki kaupenda helst í hendur við tímabundið aukið framboð, eftir langt verkfall, fer ekki hjá því að verð á mörkuðum lækki. Þá koma sumarfrí inn í þetta og í sumar lokuðu mörg fyrirtæki vinnslu sinni yfir sumarleyfistímann. Þetta er lögmálið um framboð og eftirspurn.
Hagsmunir smábátasjómanna og sjálfstæðra framleiðenda fara saman og þeir hverfast um að efla til muna fiskmarkaði og tryggja að sem mest viðskipti með fisk á Íslandi fari fram í gegnum fiskmarkaði. SFÚ hefur barist fyrir öflugri fiskmörkuðum og samráð um kaup á markaði væri út í hött þar sem slíkt grefur undan fiskmörkuðunum. Þetta mætti formaður smábátasjómanna hafa hugfast.“