Gunnar Páll aftur undir hatt Vinnslustöðvarinnar

Deila:

Gunnar Páll Hálfdánsson, sem gegndi stöðu vinnslustjóra og síðar framleiðslustjóra í Vinnslustöðinni á árunum 2013 til 2018, er nú kominn aftur á starfsmannaskrá samstæðu Vinnslustöðvarinnar. Frá þessu er greint á vef fyrirtækisins en þar er rætt við Gunnar Pál um lífið og tilveruna.

Gunnar Páll fór frá Vinnslustöðinni um árið til að taka við starfi sölustjóra hjá Leo Seafood. Í vor var svo tilkynnt um að Vinnslustöðin hafi keypt Leo Seafood.

Fram kemur í viðtalinu að fyrirtækið selji mest ufsa til Evrópulanda. „Við framleiðum meðal annars fisk fyrir Bandaríkjamarkað í fimm punda öskjum og lausfrystivörur sömuleiðis. Markaðssvæðið vestan hafs skilar okkur mestu í tekjum talið. Evrópa er hins vegar stærsti markaðurinn í tonnum talið. Við seljum mest ufsa, aðallega til Frakklands, Þýskalands, Hollands, Spánar, Kanaríeyja og Tyrklands. Okkur gengur vel. Auðvitað eru alltaf sveiflur af og til en þegar á heildina er litið kvörtum við ekki og erum bjartsýn. Hljómar það ekki bærilega?” segir Gunnar Páll meðal annars í viðtalinu.

Gunnar Páll er fæddur og uppalinn á Flateyri og segist alla tíð hafa verið í kring um fisk og sjávarútveg. Hann lærði viðskiptafræði í Háskólanum á Akureyri en var að öðru leyti í störfum tengdum sjávarútvegi.

Viðtalið má lesa hér.

Deila: