Seig niður á ísjaka

Deila:
Í eftirlitsflugi áhafnarinnar á TF-GNA á dögunum varð þyrlusveitin vör við radarsvar í ratsjá þyrlunnar þegar flogið var utan við Smiðjuvík á Vestfjörðum. Haldið var að merkinu sem var í 12 sjómílna fjarlægð og reyndist það vera ísjaki. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar.
Þar segir einnig að á leið að ísnum hafi íshröngl á stærð við fólksbíl sést. Ísjakinn var hæðar og lengdarmældur. Hann reyndist vera um 100×130 metrar. Hæðin var frá átta og upp í 15 metra.
Jakinn var á stað 66°22,7‘N 021°41‘V og virtist vera strandaður. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var upplýst sem kallaði í kjölfarið út siglingaviðvörun.
Áhöfnin tók eina hífingu á jakanum, án þess þó að sigmaðurinn losaði sig úr vírnum, og hélt eftirlitsferð sinni áfram í kjölfarið.
Myndirnar eru af Facebook-síðu gæslunnar.

Deila: