Nýr Björgúlfur kominn heim

Deila:

Hinn nýi togari Samherja, Björgúlfur EA, kom til heimahafnar á Dalvík á fimmtudag. Sigldi gamli Björgúlfur með þeim nýja inn til Dalvíkur, bæði skip fánum prýdd. Mikill mannfjöldi fagnaði skipinu. Fólki var boðið um borð að skoða og svo í fiskisúpu í frystihúsi Samherja þar á eftir.

Hinn nýi Björgúlfur er sá þriðji í röðinni en fjörutíu ár eru síðan nýsmíðaður Björgúlfur eldri, sem er nú leystur af hólmi með nýja skipinu, lagðist að bryggju í heimahöfninni Dalvík. Það þótti vel við hæfi að Sigurður Haraldsson, sem var skipstjóri á báðum eldi skipunum, tæki við spottanum og batt hann landfestarnar. Gamli Björgúlfur heitir nú Hjalteyrin og sigldi hann á móti þeim nýja í gær og fylgdi að bryggju.

Björgúlfur EA var smíðaður í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, er 62 metra langur og 13,5 metra breiður. Skipstjóri er Kristján Salmannsson, afleysingaskipstjóri er Markús Jóhannesson og yfirvélstjóri er Halldór Gunnarsson.

Björgúlfur er annar af fjórum systurskipum sem smíðuð eru hjá Cemre, Kaldbakur var fyrstur, það þriðja fer  til Fisk Seafood á Sauðárkróki og það fjórða Björg EA sem verið var að sjósetja í síðustu viku kemur til Akureyrar í haust.  Skipin eru hönnuð af Verkfræðistofunni Skipatækni, Bárði Hafsteinssyni, starfsmönnum Samherja og sérfræðingum sem þjónusta flota Samherja.

 Úr brúnni er mynd af fjórum körlum, frá vinstri: Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, Kristján Salmannsson, skipstjóri og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Úr brúnni er mynd af fjórum körlum, frá vinstri: Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, Kristján Salmannsson, skipstjóri og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

 

 Skipið bundið í fyrsta sinn en þann heiður fékk Sigurður Haraldsson sem var skipstjóri á Björgúlfi í áratugi.


Skipið bundið í fyrsta sinn en þann heiður fékk Sigurður Haraldsson sem var skipstjóri á Björgúlfi í áratugi.

Ljósmyndir Jóhann Ólafur Halldórsson.

 

Deila: