Spenningur að taka við nýju og glæsilegu skipi

Deila:

,,Því fylgir vissulega mikill spenningur að taka við nýju og glæsilegu skipi. Þótt Sturlaugur H. Böðvarsson AK sé vissulega mjög gott skip og hafi reynst HB Granda vel, þá er því ekki að leyna að það er komið til ára sinna,“ segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Sturlaugi, en hann tekur senn við skipstjórn á Akurey AK sem verið hefur í smíðum í Tyrklandi.

Eiríkur Jónsson skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni

Eiríkur og nokkrir skipverja eru farnir utan til Tyrklands til að sigla Akurey heim til Reykjavíkur. Þar ytra bíður Siguróli Sigurðsson, yfirvélstjóri á Sturlaugi, og mun hann sigla skipinu heim ásamt Eiríki og öðrum félögum sínum. Stefnt er að því að taka olíu þann 8. júní nk. og hefja heimsiglinguna þá um kvöldið.

,,Það er ákveðin eftirsjá sem fylgir því að kveðja Sturlaug enda hef ég verið í áhöfninni frá 1992. Fyrst sem stýrimaður og afleysingaskipstjóri en ég tók svo við sem skipstjóri árið 2009. Þetta er mikið happafley, smíðað á Akranesi fyrir Grundfirðing hf. árið 1981. Fyrst hét það Sigurfari SH en Sturlaugsnafnið fékk togarinn þegar Haraldur Böðvarsson hf. á Akranesi keypti hann,“ segir Eiríkur Jónsson.

Deila: