Lægsta þorskverð frá upphafi strandveiða
Fyrsta tímabili strandveiða 2017 er lokið. 471 bátur var á veiðum í nýliðnum maí móti 547 í fyrra. Það er svipaður fjöldi og í sama mánuði 2015, en langtum færri en á metárinu 2012 þegar 586 bátar voru á strandveiðum.
„Fækkunin á sér nokkrar skýringar. Sú sem vegur langþyngst er það sem fæst fyrir þorskinn. Verð nú er það lægsta í krónum talið frá upphafi strandveiða. Það dregur úr arðsemi veiðanna og um leið úr áhuga og getu til að stunda þær.
Meðalverð á fiskmörkuðum fyrir hvert kíló af óslægðum þorski sem veiddur var handfæri í nýliðnum maí var 195 krónur en 248 í fyrra.
Grafið hér sýnir verðþróunina í maí frá 2010 og segir allt sem segja þarf um þá erfiðleika sem nú herja á undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar – sjávarútveginn. Mismunur á verði við upphaf strandveiða er 116 krónur.
Það hafði einnig áhrif á fjölda báta að tímabil grásleppuveiða var lengt og því skila þeir bátar sér nú síðar til strandveiða. Aflabrögð voru nokkuð góð miðað við rysjótta tíð. Meðaltal í róðri nærri metárinu í fyrra, 596 kg á móti 601 kg í fyrra,“ segir um veiðina á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu varð aflinn á svæði A 910 tonn af kvótabundnum tegundum, sem eru 58,5 tonn umfram hámarkið. Sá afli dregst frá leyfilegum heildarafla á næsta tímabili, sem nú er hafið. Á svæði B varð heildaraflinn 416,4 tonn, sem er 105,6 tonnum undir leyfilegu hámarki og bætist sá afli við heimildir næsta tímabils. Á svæði C veiddust aðeins 365,5 tonn. Eftirstöðvar af leyfilegum afla þar eru 185,4 tonn sem flytjast yfir á tímabilið, sem nú er að hefjast. Á svæði D varð aflinn 432,3 tonn og færast því 167,7 tonn yfir á þetta tímabil og bætast við leyfilegan afla nú.
Alls færast því tæplega 400 tonn af svæðum BDC frá maí yfir á júnítímabilið.