Norðmenn gefa út ný laxeldisleyfi og stefna að aukinni framleiðslu

Deila:

Það er rangt sem stundum er haldið fram að útgáfa nýrra leyfa til laxeldis hafi verið bönnuð eða stöðvuð í Noregi. Laxeldi í Noregi, sem fer að lang mestu leyti fram í sjókvíum hefur vaxið mikið undanfarin ár. Jókst til dæmis um 4,5% frá árinu 2014 til 2015 og er nú um 1,3 milljónir tonna. Gefin eru út ný leyfi í Noregi, aukin framleiðsla leyfð í núverandi kvíum og sérstök leyfi veitt, svo kölluð græn leyfi og tilraunaleyfi. Frá þessu er sagt á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva.

Norðmenn ætla að auka fiskeldi og gefa út margvísleg leyfi
Norsk stjórnvöld hafa sett fram skýr markmið um aukna laxeldisframleiðslu í sjókvíum á komandi árum. Unnið er að setningu nýrrar reglugerðar þar sem markmiðið er að auka laxeldi um 5% annað hvert ár. Í nýlegri skýrslu um framtíðarstefnumótun atvinnugreinarinnar er markið sett á framleiðslu allt að 5 milljóna tonna af laxi.

Margs konar leyfi gefin út
Leyfi sem út hafa verið gefin í Noregi síðustu árin hafa verið af ýmsum toga. Í fyrsta lagi má nefna ný leyfi á nýjum stöðum. Í annan stað leyfi til þess að auka framleiðslumagn í kvíum sem fyrir eru. Í þriðja lagi hafa verið gefin út tilraunaleyfi og græn leyfi. Þau leyfi geta verið af ýmsum toga. Um getur verið að ræða leyfi til laxeldis í lokuðum sjókvíum, sem einkum er ætlað að draga úr skaðsemi laxalúsar á framleiðsluna. Einnig hafa verið gefin út leyfi vegna tilraunaeldis á geldfiski. Þessi vinna er enn á tilrauna og þróunarstigi, en við hana eru þó bundnar vonir. Og svo má nefna að rannsóknarstofnanir og skólar hafa fengið sérstök leyfi, sem meðal annars standa undir rekstrarkostnaði þeirra.

Af þessu má sjá að mikil þróunarvinna á sér stað innan laxeldisins í Noregi í góðri samvinnu við þarlend stjórnvöld. Þetta er liður í því að auka laxaframleiðsluna.

Hið sama uppi á teningnum á Íslandi
Hið sama hefur gerst hér á landi. Eldisframleiðslan hefur aukist mjög undanfarin ár, undir ströngu eftirliti stjórnvalda og samkvæmt reglum og stöðlum eins og best þekkjast. Fiskeldisfyrirtækin hafa greitt verulegar upphæðir í Umhverfissjóð sem settur var á laggirnar samkvæmt lögum frá Alþingi og veitti sjóðurinn  um 80 milljónum til rannsókna og þróunarverkefna í fyrra og hitteðfyrra.

 

Deila: