Deilan verði leyst við samningaborðið

Deila:

„Ég deili auðvitað áhyggjum margra af stöðu mála og margvíslegum afleiðingum verkfallsins og horfi til þess að útvegsmenn hafa í tvígang skrifað undir kjarasamninga við sjómenn í þessari lotu en sjómenn fellt samningana í bæði skiptin. Engu að síður vil ég enn að hnúturinn sé leystur við samningaborðið, þótt það kunni að taka einhverjar vikur í viðbót,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson – Binni, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar á heimasíðu félagsins.

Sigurgeir Brynjar VSV

Stjórnendur VSV boðuðu til fundar með fiskvinnslufólki sínu í fyrri viku til að heyra hljóðið í því og bjóða fram aðstoð ef svo bæri undir.

„Við vildum ekki síst ná til erlends verkafólks hjá okkur, enda höfum við áhyggjur af afkomu þess og stöðu. Þetta var góður fundur. Við komum annars vegar þeim skilaboðum á framfæri að starfsmönnum byðist öll sú aðstoð sem við gætum veitt þeim og hins vegar að búast mætti við því að verkfallið drægist á langinn, því miður.

Ég tek ekki undir kröfur um að Alþingi blandi sér í deiluna með því að stöðva verkfallið með lagaboði. Hnúturinn yrði einfaldlega til áfram, fastari en nokkru sinni fyrr. Farsælla er að fara samningaleiðina þótt torveld sé. Menn verða að vera ábyrgir gerða sinna beggja vegna borðs og ná niðurstöðu sín á milli.

Ríkisvaldið getur auðvitað greitt fyrir lausn með því að samþykkja skattfrjálsa fæðispeninga sjómanna. Hvers vegna ættu ríkisstarfsmenn, þar með taldir stjórnmálamennirnir okkar, að ferðast til útlanda og þiggja frítt fæði hjá gestgjöfum sínum og líka dagpeninga frá ríkinu?

Þarna á eitt yfir alla að ganga og ríkið getur stuðlað að því að leysa hnútinn með því að sýna þarna skattfríðindalit gagnvart sjómönnum.“

 

Deila: