Vel heppnuð fjölskylduhátíð HB Granda
Fjölskylduhátíð HB Granda var haldin í blíðskaparveðri í Laugardalnum um helgina. Hátíðin var að vanda haldin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, enda er það orðinn fastur liður í starfsemi HB Granda að starfsfólki og fjölskyldum þeirra sé boðið til hátíðar í garðinum helgina eftir verslunarmannahelgi.
Að þessu sinni mættu um 650 manns í garðinn og líkt og á fyrri fjölskylduhátíðum félagsins fengu öll börn, 13 ára og yngri, dagpassa í leiktækin. Boðið var upp á andlitsmálun og blöðrudýr og allir fengu grillaðar pylsur. Ísvagninn frá ísbúðinni Valdís var einnig á svæðinu og vakti mikla lukku, enda alltaf gott af kæla sig með ís í sól og blíðu.