Túnfiskkvóti Norðmanna 104 tonn

Deila:

Norðmenn hafa nú gefið út reglugerð um veiðar á túnfiski. Tvö skip munu fá leyfi til veiða í nót. Kvótinn er 104 tonn og munu koma 45 tonn í hlut hvors skips, en 14 tonn eru tekin til hliðar vegna meðafla túnfisks við aðrar veiðar. Umsóknarfrestur um veiðileyfi er til 22. mars.

Skilyrði fyrir úthlutun veiðileyfis er að viðkomandi fiskiskip sé sérútbúið til túnfiskveiða. Að fyrir liggi áætlun um meðhöndlun aflans um borð og í landi og sölu fisksins, sem tryggi að gæði haldist í hámarki. Þá er skilyrði að eftirlitsmaður sé um borð og útgerðin greiði allan kostnað vegna þess.
Sæki fleiri en tvö skip um veiðarnar og uppfylli öll skilyrði verður hlutkesti varpað til að ákvarða hver hlýtur leyfið.  Meðafli af makríl verður ekki leyfður nema hann sé hægt að draga af úthlutuðum aflaheimildum skipsins í makríl.
Skipin skulu hafa aðstöðu fyrir fiskifræðing til sýnatöku og krefjast má þess að áhafnir skipanna safni ýmis konar sýnum. Ekki liggur fyrir hver kostnaður vegna eftirlitsmanna verður í ár, en í fyrra var fastur kostnaður 1,5 milljónir króna auk 28.000 króna á dag.

Túnfiskveiðar hér við land eru einungis leyfðar á línu. Enginn túnfiskur var veiddur í fyrra en þrjú ár þar á undan stundaði skip Vísis hf. í Grindavík, Jóhanna Gísladóttir, veiðarnar með nokkuð góðum árangri.

Deila: