Þrælasala, fiskveiðistjórn við Færeyjar og saga Súlutinds

Deila:

Jólablað tímaritsins Ægis er fjölbreytt og áhugavert að vanda. Þar er að finna viðtöl, fréttaskýringar, og sagnfræði auk almennra frétta.

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, segir í viðtali að pólitískan kjark skorti alveg. Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar segir í Ægisviðtali að hann eigi ekki von á neinum kollsteypum í stjórnun fiskveiða og Margrét Pálsdóttir er nýr formaður félags kvenna í atvinnurekstri.

Farið er yfir ráðleggingar Alþjóða hafrannsóknaráðsins um þorskveiðar við Færeyjar, fiskveiðistjórnun þar og viðbrögð heimamanna við tillögum um þorskveiðibann næstu tvö árin. Skipasmíðastöð Njarðvíkur smíðar stálbát fyrir krókakerfið. Rakin er saga bátsins Súlutinds, sem ekkja í Grindavík, Helga Þórarinsdóttir, vann í happdrætti DAS 1955. Auk bátsins voru aðalvinningar Dodge bifreið og dráttarvél. Báturinn er enn til og hvílir nú „lúin bein“ í nausti á Hellissandi. Loks eru rakin tengsl saltfisks, romms og þrælasölu á nítjándu öld.

Jóhann Ólafur Halldórsson ritstjóri Ægis ritar leiðara blaðsins að vanda og segir þar meðal annars:

„Stærsta fréttin á sjávarútvegssviðinu á árinu 2022 var vafalítið samdráttur þorskveiðiheimilda þriðja fiskveiðiárið í röð. Bara sú staðreynd að þorskurinn einn og sér stendur fyrir um 4% af vergri þjóðarframleiðslu endurspeglar ekki aðeins mikilvægið fyrir þjóðarbúið heldur ekki síður mikilvægið fyrir einstakar sjávarbyggðir og fyrirtæki í greininni sem eiga mest undir þorskveiðum. Yfir lengra tímabil litið hlýtur að vera áleitin spurning hvers vegna okkur hefur ekki tekist að byggja þorskstofninn betur upp, hvort sú aðferðafræði sem gripið var til þegar samdrátturinn varð sem mestur var röng eða hvort aðrir áhrifaþættir hafa lagst á sveif gegn uppbyggingunni á undanförnum áratugum. Samdráttur um rösklega 23% í þorskveiðum á þremur fiskveiðiárum hefur bitið og mun enn bíta í hælana á næsta komandi ári. Það munu því margir þurfa að hagræða og gera breytingar í sínum rekstri en mestu skiptir að áfram takist að skapa aukin verðmæti úr þorski sem öðrum fiskafla og að markaðir haldist stöðugir. En það er einmitt styrkur sjávarútvegsgreinarinnar að laga sig stöðugt að nýjum veruleika. Það mun hún gera nú, sem fyrr. Tímaritið Ægir óskar lesendum, viðskiptavinum og starfsfólki í íslenskum sjávarútvegi gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári.“

Á efri myndinni er Helga Þórarinsdóttir barnabarn og alnafna vinningshafans við bátinn Súlutind á Hellissandi.

Deila: