Nýtt mötuneyti hjá slippnum

Deila:

Nýtt mötuneyti var tekið í notkun hjá Slippnum á Akureyri fyrr í þessum mánuði. Framkvæmdin fólst í endurbótum á matsal þar sem m.a. sett var nýtt kerfisloft til að bæta hljóðvist og fyrirkomulagi á matsalnum var breytt. Ennfremur voru öll eldhústæki endurnýjuð ásamt öllum borðbúnaði, borðum og stólum. Nýtt skráningarkerfi var einnig tekið í notkun þar sem starfsmenn Slippsins nota starfsmannakortin sín til að greiða fyrir matinn í stað matarmiða.
„Matsmiðjan, áður Lostæti, hafði þjónustað okkur með mötuneyti hér til fjölda ára og gert vel. Við hinsvegar tókum þá ákvörðun að segja skilið við Matsmiðjuna og gera tilraun með að Slippurinn myndi reka sitt eigið mötuneyti því það skiptir gríðarlega miklu máli að geta boðið starfsfólki upp á góða aðstöðu og góðan mat á viðráðanlegu verði. Framkvæmdin tók rúma þrjá mánuði og er útkoman frábær. Kortakerfið er enn í þróun og verður orðið fullklárt eftir örfáar vikur. Þá eru starfsmenn einnig farnir að forskrá sig í mat en það er afar mikilvægur þáttur í því að halda kostnaði niðri og minnka matarsóun“
segir Kristján Heiðar mannauðsstjóri hjá Slippnum Akureyri í viðtali við heimasíðuna.

Slippurinn réð Sylvíu Benediktsdóttur sem matráð en hún þekkir vel kröfurnar okkar þar sem hún var matráður Matsmiðjunnar í Slippnum og samhliða henni mun Viktoryia Matusevich starfa í nýja mötuneyti Slippsins.

 

Deila: