Fjallað um skelveiðar á Breiðafirði í nýjasta Ægi

Deila:

„Á þessu ári komum við til með að veiða þúsund tonn af skel, sem er ansi langt frá því sem var á árum áður. Jafnstöðuaflinn hér í Breiðafirði var um 8.500 tonn á ári frá 1992 til 2003. Við erum enn langt frá því. Þó við höfum ekki alveg náð að kortleggja útbreiðslusvæði skeljarinnar á árum áður þá verður vonandi sett í það meiri vinna á komandi misserum að finna út hvar hún kann að leynast annars staðar.“ Þetta segir Sigurður Ágústsson, framkvæmdastjóri Agustson í Stykkishólmi í samtali við sjávarútvegstímaritið Ægi, en 9. tölublað þess er nýkomið út.

Fyrirtækið var á sínum tíma frumkvöðull í veiðum og vinnslu á hörpuskel. Veiðarnar lögðust af skömmu eftir síðustu aldamót þegar stofninn hrundi vegna sýkingar. Rannsóknir hafa verið stundaðar síðan þá í samvinnu Hafrannsóknastofnunar og handhafa aflahlutdeildar í hörpuskel og tilraunaveiðar verið stundaðar síðustu haust.

Í blaðinu er að vanda fjölbreytt efni um sjávarútveginn. Meðal efnis er grein Ólafs S. Ástþórssonar, sérfræðings á Hafrannsóknastofnun, um endurnýjun frændþjóða okkar á hafrannsóknaskipum , en hvað með okkur? spyr hann. Mikil ánægja var með World Seafood ráðstefnuna á Íslandi, sagt frá útgáfu 60 ára sögu Síldarvinnslunnar og að deilistofnar uppasjávarfisks skili miklum afla. Þá er fjallað um nýjan togara Útgerðarfélags Akureyringa, Björg EA 7 og ýmsu fleiru.

Deila: