Reynslubolti ráðinn til Hampiðjunnar

Deila:

Kristinn Gestsson skipstjóri hefur verið ráðinn sölumaður veiðarfæra hjá Hampiðjunni. Kristinn, sem var til skamms tíma skipstjóri á frystitogaranum Þerney RE, segir að nýja starfið leggist vel í sig enda fái hann tækifæri til að halda tengslum við það líf sem hann hafi lifað og hrærst í. Hann þekki vel til kosta veiðarfæranna og hlakki til að fá tækifæri til að miðla af reynslu sinni og aðstoða viðskiptavini Hampiðjunnar.

Kristinn Gestsson

,,Ég er rétt að átta mig á hlutunum en tel mig heppinn að hafa fengið þetta starf eftir að Þerney var seld úr landi. Ég hef ekki fyrr verið í föstu starfi í landi enda byrjaði ég sjómennskuna aðeins 14 ára gamall og viðbrigðin verða því töluverð. Eiginkonan er ánægð með að hafa mig heima eftir allar fjarverurnar en það verður svo bara að koma í ljós hvort hún verður leið á mér og nýrri tilhögun á heimilislífinu, segir Kristinn eða Diddi eins og hann er jafnan nefndur, í samtali á heimasíðu Hampiðjunnar.

Sem fyrr segir þekkir Kristinn vel til veiðarfæranna frá Hampiðjunni enda segist hann nánast eingöngu hafa notast við troll frá Hampiðjunni á sínum langa sjómannsferli.

,,Við, sem höfum verið skipstjórar hjá HB Granda, höfum tekið þátt í að þróa og reyna ný troll frá Hampiðjunni og það hefur alltaf verið gott samstarf á milli fyrirtækjanna. Eitt af mínum fyrstu verkefnum fyrir Hampiðjuna verður að fara í ferðina í tilraunatankinn í Hirtshals en þangað hef ég farið sem skipstjóri og haft mikið gagn af. Í þessum ferðum kynnist maður nýjum veiðarfærum og efnum og svo ekki sé talað um veiðarfæratæknina sjálfa. Þá hefur maður getað borið saman bækur sínar og annarra skipstjórnarmanna, íslenskra og erlendra, og heilt yfir hef ég lært mikið í þessum ferðum. Nú verð ég hinum megin við borðið en ég kvíði því ekki. Þvert á móti hlakka ég til.“

Risastórt stökk framundan
Hvað með nýjungarnar sem menn standa nú frammi fyrir. Hvað vekur helst áhuga þinn?

Mitt mat er það að við stöndum nú á þröskuldi tæknibyltingar í notkun veiðarfæra með þeirri gagnatækni sem völ er á í dag og sem kemst vonandi fljótlega til notkunar  í veiðarfærunum. Fram að þessu hefur þróunin verið hæg en samfelld en ég er sammála Friðleifi skipstjóra á Engey RE, sem orðaði það þannig á dögunum, að nú væri verið að kippa mönnum inn í framtíðina. Því er ég sammála og ég held að það sé risastórt stökk framundan,“ segir Kristinn Gestsson.

Deila: