Bíða reglugerðar um viðbótarheimildir í makríl

Deila:

Smábátaeigendur bíða nú með óþreyju eftir reglugerð um viðbótarheimildir í makríl.  Í bráðabirgðaákvæði laga um stjórn fiskveiða er ákvæði um að úthluta skuli 2.000 tonnum af makríl til smábáta, samkvæmt frétt á heimasíðu LS.

Veiðiheimildirnar eru einkum ætlaðar til aðila sem ekki höfðu tækifæri til að ávinna sér veiðireynslu á viðmiðunarárum.  Gegn greiðslu kr. 2,78 á hvert kíló verður hægt að fá makrílheimildir færðar til sín.  Á síðustu vertíð var reglugerðin ekki gefin út fyrr en 6. september og fyrsta úthlutun fór fram 12. september sem var 10 dögum fyrir lok vertíðar.  Nú stóðu vonir til að hafa hana fyrr á ferðinni þannig að auðveldara sé að hefja veiðar strax og makríllinn er kominn í veiðanlegt magn á miðin.

LS hefur lagt áherslu og ítrekað að reglugerðin verði gefin út sem fyrst.  Úthlutunarreglur taki til þeirra sem hafa fengið minna en 27 tonn úthlutað sbr. reglugerð 295/2017.  Fyrsta úthlutun verði 20 tonn og þegar búið er að veiða 80% af heimildunum geti menn fengið 35 tonna úthlutun.

Skilyrði annarra fyrir úthlutun úr pottinum er að þeir hafi veitt 80% af úthlutuðum heimildum.

„Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu bíður reglugerðin undirritunar ráðherra sem er í sumarfríi til mánaðamóta sem virðist að vísu ekki stoppa aðrar reglugerðir frá afgreiðslu,“ segir í frétt LS.

 

Deila: