Félag skipstjórnarmanna tekur við hlutverki FFSÍ

Deila:

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands verður lagt niður og tekur Félag skipstjórnarmanna við hlutverki þess. Tillaga þess efnis var lögð fram og samþykkt á nýafstöðu þingi FFSÍ. Tillaga formanna allra aðildarfélaga FFSÍ. Þ.e.a.s. Félags skipstjórnarmanna, Vísis, Verðanda, Félags Bryta og Félags Ísl. Loftskeytamanna um að Félag skipstjórnarmanna taki við hlutverki FFSÍ og sambandið verði lagt niður.

Af ofangreindu tilefni hafa formenn FS, Vísi og Verðanda  fundað og sammælst um það ferli sem fara þarf fram til að ljúka þessari breytingu á fyrirkomulagi á því mikilvæga hlutverki að standa  vörð um hagsmuni  íslenskra skipstjórnarmanna. Stjórnir allra aðildarfélaganna hafa verið upplýstar um framgang mála.

Hér fara á eftir ályktanir þingsins:

 Ályktun um eflingu eftirlits.

  1. þing FFSÍ haldið dagana 23. og 24. nóvember 2017, ályktar eftirfarandi í ljósi frétta af brottkasti og alvarlegs misræmis varðandi hlutfall íss í lönduðum bolfiskafla. Þingheimur skorar á þau stjórnvöld sem brátt taka við landsstjórninni að eitt af forgangsmálum nýrrar ríkisstjórnar verði að beita sér af krafti fyrir því að þessum málum verði komið í lag. Þingið vill þó leggja áherslu á að umfjöllun fjölmiðla um brottkast í flotanum undanfarna daga sé í engu samræmi við upplifun starfandi skipstjórnarmanna.

 

 Ályktun um starfsemi Hafrannsóknastofnunar rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna.

  1. þing FFSÍ haldið dagana 23. og 24. nóvember 2017, skorar á sjávarútvegsráðherra að beita sér innan ríkisstjórnarinnar fyrir smíði nýs rannsóknarskips. Við blasir að rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson sem var byggður árið 1970 er ekki lengur í ástandi til að uppfylla þær kröfur sem gera verður til hafrannsóknarskipa, enda og löngu tímabært að ráðast í úrbætur á þessu mikilvæga sviði. Þingið telur brýnna en nokkru sinni að stórauka veiðarfæra-, haf- og fiskirannsóknir. Aukin þekking á þessum sviðum er algjör grunnforsenda fyrir betri nýtingu á auðlindum hafsins.

Greinagerð:

Ómæld verðmæti fara forgörðum að óbreyttu ástandi. Það er lágmarkskrafa að tryggt sé að rannsóknarskip stofnunarinnar séu endurnýjuð með eðlilegum hætti og að stofnuninni verði gert kleift að          nýta þau til rannsókna af fullum krafti allt árið í stað þess að skipin liggi í höfn langtímum saman vegna fjárskorts.

Ályktun um hlut stýrimanns á beitningavélabátum.

  1. þing FFSÍ haldið dagana 23. og 24. nóvember 2017, vill að gefnu tilefni vekja athygli útgerða á smærri línubátum á bilinu 12 til 15 metrar að lengd skal vera stýrimaður og ber að greiða stýrimanni 1 ½ hásetahlut. Greiðsla launa undir því lágmarki er klárt samningsbrot.

Greinargerð: Að undanförnu hafa verið brögð að því í þessum flokki báta að stýrimenn hafi fengið laun sem  ekki nær umsömdum stýrimannshlut. Stýrimenn sem telja á sér brotið eru hvattir til að tilkynna stéttarfélagi sínu um slík tilvik.

Ályktun um hvalveiðar.

  1. þing FFSÍ haldið dagana 23. og 24. nóvember 2017, og sem fyrr lýsir FFSÍ yfir afdráttarlausum stuðningi við hvalveiðar og varar eindregið við vanmati á þeim áhrifum sem afrán hvalastofna hefur á           þá nytjastofna sem mesta þýðingu hafa.

   Ályktun um Landhelgisgæslu Íslands.

  1. þing FFSÍ haldið dagana 23. og 24. nóvember 2017 skorar á stjórnvöld að tryggja Landhelgisgæslu Íslands nægjanlegt fjármagn til reksturs stofnunarinnar. Það er óviðunandi að skip Landhelgisgæslunnar liggi bundin við bryggju meirihluta ársins og að flugvélin sé fjarverandi langtímum saman. Öryggi sjófarenda er í húfi.

Greinargerð:

Um allt of langan tíma hafa fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar verið í lágmarki. FFSÍ sem hagsmunaaðili skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, hverju nafni sem þau nefnast, finnur fyrir áhyggjum sinna skjólstæðinga vegna þessa. Brýnt er að úr verð bætt.

13    Ályktun um útgerð kaupskipa.

  1. þing FFSÍ haldið dagana 23.-24. nóvember 2017, krefst þess að stjórnvöld tryggi að útgerð kaupskipa á Íslandi verði samkeppnishæf í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi greinarinnar. Íslensk kaupskipaútgerð er þegar aflögð en tryggja verður að atvinnugreinin geti lifnað við og átt möguleika til framtíðar. Ljóst má vera að inn- og útflutningur þjóðarinnar mun ávallt byggjast á sjóflutningum.

Greinagerð:

Stjórnvöld hafa ekki sýnt að þau geri sér grein fyrir mikilvægi þess að kaupskipaútgerð fái þrifist á Íslandi. Búa þarf kaupskipaútgerð samkeppnishæft skattaumhverfi til samræmis við það sem alþjóðleg útgerð býr við. Það er ekki frjáls þjóð sem ekki ræður yfir kaupskipaflota sínum.

Hráefni til stóriðju sem og afurðir stóriðju eru að langstærstum hluta flutt að og frá landinu með skipum í eigu erlendra aðila og mönnuð erlendum sjómönnum. Sama gildir um útflutning á sjávarafurðum. Nú er svo komið að aðeins eru 6 kaupskip mönnuð sjómönnum búsettum á Íslandi.

Ályktun um eftirlit með hvalaskoðunarskipum

  1. þing FFSÍ haldið dagana 23. og 24. nóvember 2017, skorar á stjórnvöld að sjá til þess að eftirlit með hvalaskoðunarskipum og öðrum skipum sem stunda útsýnissiglingar verði með þeim hætti sem lög kveða á um.

Greinagerð: Undanfarið hefur margsinnis komið í ljós að lögskráning og réttindamál um borð í þessum skipum eru í ólestri án þess að nokkuð sé að gert.

Ályktun um endurnýjun lögskráningarkerfis sjómanna.

  1. þing FFSÍ haldið dagana 23. og 24. nóvember skorar á stjórnvöld að sjá til þess að nú þegar verði sett fjármagn til að ljúka við að endurnýja lögskráningarkerfi sjómanna.

Greinagerð: Núverandi lögskráningarkerfi er orðið úrelt sem er algerlega óviðundandi og hefur verið kallað í mörg ár eftir endurbótum eða nýju kerfi en ávallt borið við af Samgöngustofu að fjármagn vanti til verksins.

 Ályktun um erlend skip sem starfa fyrir íslensk fiskeldisfyrirtæki.

  1. þing FFSÍ haldið dagana 23. og 24. nóvember 2017, skorar á Samgöngu- og sveitastjórnaráðuneytið að koma í veg fyrir að skip undir erlendum fánum starfi við Ísland, fyrir íslensk fyrirtæki (fiskeldisfyrirtæki) þar sem um slík skip gildi ekki íslenskar reglur varðandi búnað og mönnun.

Greinagerð:

Rétt er að íslensk lög og reglur gildi um þessi skip rétt eins og önnur sem starfa við Ísland.

 

 

 

Deila: